c

Pistlar:

19. október 2020 kl. 10:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Cambridge Analytica: Gamalt samsæri jarðað

Þessa daganna verða flestir varir við öfluga áróðursherferð Stjórnarskrárfélagsins svokallaða sem í nokkurn tíma hefur eytt allnokkrum fjármunum á degi hverjum í auglýsingar á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum til þess að kynna undirskriftasöfnun sína fyrir nýrri stjórnarskrá. Þessum auglýsingum virðist vera sérstaklega beint að ungu fólki og konum. Söfnunin minnir okkur á áhrifamátt samfélagsmiðla þegar kemur að því að setja mál á dagskrá og fá athygli fjölmiðla. Þessir stjórnarskrárliðar eru enda snjallir að skapa fjölmiðlauppákomur og virðast eiga auðvelt með að koma skoðunum sínum á framfæri og aðgengi þeirra að fjölmiðlum er með ágætum. Formaður félagsins fær þannig óáreitt að halda eldmessur þegar henta þykir og það verður ekki af henni tekið að mælsk er hún. En er þessi herferð Stjórnarskrárfélagsins og víðfeðm umfjöllun félagsmanna á samfélagsmiðlum að breyta skoðunum fólks í raun og veru? Er sá hópur sem hefur skrifað undir ekki sá hópur sem hvort sem er var tilbúinn að leggja við hlustir? Það er erfitt að segja enda getur verið vandasamt að setja sig inn málið, bæði ferlið og sjálfa stjórnarskrárvinnuna. Öllu þessu er því erfitt að svar svo fullnægjandi sé og enn erum við að læra og skilja áhrifamátt samfélagsmiðla sem geta vissulega haft áhrif þó við vitum ekki alveg hve djúpstæð eða víðfeðm þau eru. Síðustu misseri hafa tvö mál verið öðrum þekktari þegar kemur að samfélagsmiðlum og áhrifamætti þeirra. Annars vegar eru það meint áhrif Rússa á síðustu forsetakosningar í Bandaríkjunum og svo hins vegar baráttuna fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Brexit.1280px-Cambridge_Analytica_and_Facebook

Krónur og aurar Rússanna

Að sumu leyti má segja að umræða um áhrif óskilgreinds hóps Rússa á forsetakosningarnar hafi fjarað út. Þrátt fyrir allmiklar rannsóknir er ekkert sem hefur beinlínis stutt þessar sögur. Þegar upp er staðið er talið að Rússar hafi hugsanlega varið í kringum 100.000 Bandaríkjadölum og það er erfitt að trúa því að það hafi áhrif þegar forseti Bandaríkjanna er valinn. Sérstaklega þegar haft er í huga að auðmaðurinn Michael Bloomberg, sem er einn af tuttugu ríkustu mönnum heims, náði ekki að komast í gegnum forkosningar demókrata fyrir ári síðan þó hann hafi eytt á milli 300 og 400 milljónum dala til þess. Þegar samhengið er skoðað sést að það getur verið erfitt að kaupa sér pólitískan stuðning þó menn hafi bæði auð og vilja til þess.

Hitt tilvikið lýtur að Brexit. Fyrir stuttu lauk þriggja ára langri rannsókn Information Commissioner, breskrar eftirlitsstofnunar, á verkefnum hins mjög svo umdeilda fyrirtækis Cambridge Analytica en starfsmenn fyrirtækisins voru sakaðir um að hafa komist yfir upplýsingar um tugmilljónir notenda Facebook og notað þær til að fá Bretar til að styðja í þjóðaratkvæðagreiðslu að ganga úr Evrópusambandinu. Höfum hugfast að 52% þeirra sem kusu studdu útgöngu eða 17.410.742 kjósendur, nærri 1,3 milljón fleiri en voru á móti. Til að bæta um betur voru einnig ásakanir um að Cambridge Analytica hefði lagt sitt af mörkum til að tryggja Donald Trump sigur í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Það er í dag álíka trúverðugt og afskipti Rússa.

Um tíma ríkti mikil dulúð yfir Cambridge Analytica og ekki síður spunadoktornum Dominic Mckenzie Cummings og bæði fjölmiðlar og afþreyingaiðnaður stökk á vagninn. Nú fyrir nokkrum dögum endursýndi Ríkissjónvarpið myndina Brexit - Blekkingar og bolabrögð (Brexit - The Uncivil War) sem er leikin mynd „byggð á sönnum atburðum“ eins og segir í dagskrárkynningu Ríkissjónvarpsins. Má ekki efast aðeins um það? En myndin er annars bráðskemmtileg. Um leið vekur athygli að Ríkissjónvarpið hefur ekki fundið tíma til að sýna Panorama-þáttinn um gyðingahatur innan breska Verkamannaflokksins (Is Labour Anti-Semitic?) en ásakanir um gyðingahatur höfðu talsverð áhrif á að Jeremy Corbyn missti leiðtogasætið.

En öll þessi umræða um Cambridge Analytica og Dominic Cummings var hávær um tíma og margir hikuðu ekki við að fullyrða að þar hefðu lög og sáttmálar samfélagsins verið brotin. Sjálft lýðræðið hafi verið sveigt af leið af einstaklega óprúttnu fólki. En nú blasir semsagt við að niðurstöðurnar eru ekki í samræmi við ásakanirnar á sínum tíma. Niðurstaðan er sú að Cambridge Analytica hefði ekki haft afskipti af atkvæðagreiðslunni um Evrópusambandsaðildina ef undan eru skildar athuganir á afstöðu fólks á fyrstu stigum. Rannsóknin var þó ekki án árangurs, en bæði Facebook og tvenn samtök, sem börðust fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu (Vote Leave og Leave.EU), voru sektuð.

Hlutverk fjölmiðla

Andrés Magnússon, ritstjórnarfulltrúi á Morgunblaðinu, skrifar athyglisverða grein um þetta í blaðið í síðustu viku. Þar segir hann. „Að því leyti má kannski spyrja hvort þeir, sem hæst létu um áhrif Cambridge Analytica á sínum tíma, hafi ekki verið of auðtrúa á mátt tækninnar. Og þá kannski ekki síður hvort það lýsi ekki nokkru yfirlæti, að ætla almenningi það að láta heilaþvo sig svo auðveldlega, en eiginlega aðeins til „rangrar“ skoðunar. Þar léku sumir fjölmiðlar stórt hlutverk, mjög sennilega vegna þess að þeir studdu hinn málstaðinn og áttu erfitt með að trúa því að kosningin hefði ekki tapast með einhverjum vélabrögðum. Mögulega einnig vegna þess að þeir vildu vera með umfjöllun um ógnir alnetsins og upplýsingasöfnun. The Observer, systurblað Guardian, var þannig með greinaflokk um „Cambridge Analytica-skjölin“, svona eins og fjallað var um helstu gagnaleka um svipað leyti.“

Þetta er semsagt niðurstaðan, eftir langa rannsókn sést að þetta skipti í raun engu máli og samsæriskenningar fjölmiðla eins og The Observer og Guardian voru ekki byggðar á miklu. Ekki þar fyrir, fjölmargir aðrir fjölmiðlar stukku á vagninn og reyndar hálf sérkennilegt að horfa á þess uppákomu í baksýnisspeglinum. Sé þetta uppreist æru fyrir Cambridge Analytica þá kemur hún of seint, félagið er gjaldþrota og því bara hluti af sagnfræði í dag. Kannski var aðalglæpur þeirra að láta of drýgindalega um getu sína! Þegar upp var staðið voru þeir bara að gera það sem allir eru að gera, meðal annars Stjórnarskrárfélagið í dag.

Nú bregður svo við að við erum að sjá ný og stórfelldari inngrip í skoðanaumræðuna þegar samfélagssíðurnar Twitter og Facebook eru beinlínis farnar að hindra hvað flæðir um síður þeirra í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Þá er eðlilegt að menn spyrji sig hvort sé verra: tilfallandi falsfréttir vitleysinganna eða skipuleg ritstýring þeirra sem telja sig vita betur? Hvað segir dæmið um Cambridge Analytica okkur?