c

Pistlar:

15. ágúst 2019 kl. 14:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Erfiðir tímar hjá seðlabankastjórum


Í lok október verður skipt um yfirstjórn æðstu stofnanna Evrópusambandsins. Þá sest Christine Lagarde í stól bankastjóra Evrópska seðlabankans (ECB) en greint var frá tilnefningu hennar í júlí. Lagarde er þekkt nafn í heimi stjórnmála og fjármála en hún var yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 2011 til 2019. Hún er menntaður lögfræðingur og hefði því ekki brautargengi í íslenska seðlabankann! Ekki er víst að hún hefði náð að svara þeim 27 spurningum um fræðilegan grunn peningastefnu sem lagðar voru fyrir íslensku bankastjóraefnin í atvinnuviðtali þeirra við forsætisráðherra. En um reynslu hennar deilir enginn.lagard

Víða um heim blasa við áríðandi verkefni hjá seðlabönkum enda heimsbúskapurinn oft verið betri. Það sem verra er, er það að vopnabúr margra seðlabanka eru tæmd, vextir í lágmarki og jafnvel neikvæðir, uppkaup skuldabréfa verið ástunduð allt of lengi og því erfitt að sjá hvernig seðlabankar heimsins geta komið efnahagnum á skrið. Þetta á sérstaklega við á áhrifasvæði ECB og þarf Lagarde að sýna mikil hyggindi og stefnufestu til að þola þau ár sem framundan eru. Hingað til hefur verið talið erfiðast fyrir seðlabanka að fást við verðbólgu. Þekkt er að þegar bankastjórinn Paul A. Volcker hóf að glíma við tveggja stafa verðbólgu í Bandaríkjunum í kringum 1980 varð hann að þola morðhótanir og einstaka sinnum myndaðist umsátursástand við húsakynni bankans. Sumir þingmenn vildu fá samþykkt vantraust á hann. Æviminningar Volckers (Keeping At It: The Quest for Sound Money and Good Government) eru með þeim fróðlegri um samspil stjórnmála og peningastefnu. En Lagarde mun þurfa að fást við verðhjöðnun og neikvæða vexti. Fróðlegt verður að sjá hvernig hún bregst við því.

Banki allra

Evrópski seðlabankinn var stofnaður 1998, einn slíkra banka án tengsla við ríkisfjármál einnar tiltekinnar ríkisstjórnar. Hann varð þannig að verða allra, hlutverk sem hagfræðingar vissu ekki hvernig myndi leysast. Til að draga úr áhyggjum Þjóðverja var bankinn staðsettur í Frankfurt og þeim nánast lofað að þeir fengju að hafa meira um málefni hans að segja en aðrir. Þeir höfðu jú fórnað mestu með upptöku evrunnar og óttuðust manna mest verðbólgu. Efnahagsstefna ECB hefur að miklu leyti mótast af Þjóðverjanum Otmar Issing, aðalhagfræðingi bankans, sem átti einnig feril innan Bundesbankans. Írinn Philip Lane leysti hann af hólmi í sumar. Málin hafa því þróast þannig að ítök Þjóðverja hafa minnkað sem ekki góðs viti fyrir þá sem aðhyllast klassíska hagfræði. Þýsk ríkisskuldabréf til 30 ára bera nú neikvæða vexti og eigendur ríkisskuldabréfa um allan heim eiga erfitt með að fá nokkra ávöxtun. Farið er að lána íbúðalán með neikvæðum vöxtum.

Þjóðverjar hafa frá upphafi krafist aukins valds hjá ECB og þeir höfðu strax frá byrjun áhyggjur af peningamagni í umferð og þeirri tilhneigingu seðlabanka að auka það í kreppu. Rétt eins og hjá öðrum seðlabönkum var ECB ætlað að fást við verðbólgu öðru fremur. En peningamagn í umferð innan svæðis ECB er áhyggjuefni en í apríl síðastliðnum lá fyrir að hann hafði keypt ríkisskuldabréf að verðmæti 2,6 billjóna evra (billjón er er milljón milljónir). Það getur orðið sársaukafullt að vinda ofan af því.

Bankastjóri sem aldrei hækkaði vexti

Ítalski hagfræðingurinn Mario Dragi leysti Jean-Claude Trichet af hólmi í nóvember árið 2011 og hefur því stýrt ECB í átta ár og aldrei hækkað vexti. Segja má að honum hafi tekist að skapa stöðugleika án hagsældar eins og vikið var að í pistli hér fyrir nokkrum árum. Það er að sjálfsögðu hlutverk seðlabanka að stuðla að stöðugleika og að því leyti má segja að Dragi hafi tekist vel upp. En það á hina vegar eftir að koma í ljós hvaða gjald er greitt fyrir það en seðlabankar heimsins eiga erfitt með að senda skýr skilaboð um þessar mundir. Þannig hefur bandaríski seðlabankinn snúið við í miðju kafi vaxtahækkunarferlis og lækkað vexti, ekki mikið en þó um 25 punkta eða niður í 2,25 prósent. Svo virðist sem Jerome Powell, bankastjóri bandaríska seðlabankans, eigi við trúverðugleikavandamál að etja og Donald Trump er honum áskorun sem öðrum. En það eru vandasamir tímar framundan hjá seðlabönkum um allan heim og fáir í sporum þess íslenska sem getur hugsanlega lækkað vexti enn frekar. En það er eitt af því sem bíður nýs bankastjóra að véla um.