c

Pistlar:

12. desember 2018 kl. 21:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nauðsynlegt að hemja skattmann

Í síðustu tveimur pistlum hef ég tekið skattheimtu til umfjöllunar, meðal annars í ljósi nýlegs samanburðar OECD um hlutfall skattheimtu af landsframleiðslu í einstökum löndum. Ljóst er af ýmsum viðbrögðum að margir eru tortryggnir á slíkan tölulegan samanburð milli landa. Að hann sé oftar en ekki villandi og gefi þar af leiðandi engan veginn rétta mynd af ólíkri stöðu einstakra landa. Það er hægt að taka undir það. Skattkerfi landa eru yfirleitt ólíkt uppbyggt og þó að Evrópusambandið hafi stefnt að auknum samruna og samhæfingu þá hefur það ekki náð til skattkerfisins. Inn á það svið virðist það ekki treysta sér.

Algengt er að menn velti því fyrir sér hvernig tekið sé tillit til lífeyrisgreiðsla, nú eða almannatryggingakerfisins, þegar samanburður er gerður. Mörg lönd byggja á gegnumstreymiskerfi þar sem ríkið tekur að hluta að sér lífeyrisgreiðslur, þá oft mun lægri en til dæmis Tryggingastofnun greiðir út til ellilífeyrisþegar þar. Skerðingar eru síðan annar handleggur, þær eru ólíkar milli landa.

Á skattkerfið að vera jöfnunartæki?

Nú, svo kemur upp umræða um það að skattkerfinu eigi að vera beitt sem jöfnunartæki. Þá þarf um leið að horfa til þess hvaða áhrif það hefur á vinnuframlag en í þrepaskiptu skattkerfi hverfur oft vilji fólks til að bæta við sig vinnu til að efla hag sinn. Í Bandaríkjunum hafa menn löngum unnið meira en í Evrópu og þar hefur framleiðsla á manna verið 20 til 30% hærri en í Evrópu. Nóbelsverðlaunahafinn Edward Prescott hefur rakið þessa staðreynd til þess að í Evrópu séu skattar, bæði beinir og óbeinir, miklu hærri en í Bandaríkjunum og vinnuvilji og framtak að sama skapi minni. Af þessu hafa menn dregið þá ályktun að sé hærri sköttum beitt í jöfnunarskyni sá það á kostnað hagvaxtar sem leiði til lægri tekna hinna tekjulægri þegar til langs tíma er litið.

Ofskattlagning og fólksflótti

Í sumum tilvikum hefur þetta leitt þjóðfélög í ógöngur. Þekkt dæmi kemur frá Svíþjóð sem hefur verið rakið hér áður. 3. mars 1976 skrifaði sænski rithöfundurinn Astrid Lindgren grein í götublaðið Expressen sem bar hið torkennilega heiti „Pomperipossa in Monismania". Um var að ræða háðsádeilu (e. satirical allegory) um barnabókahöfund í fjarlægu land. Engum duldist hvað við var átt; greinin fjallaði um Astrid (Pomperipossa) og landið var Svíþjóð (Monismania). Greinin var skrifuð í tilefni þess að Lindgren hafði uppgötvað að hún greiddi hvorki meira né minna en 102% skatt af skáldskap sínum. Grein Astrid kallaði fram mikla umræðu um skattkerfið í Svíþjóð og hún magnaðist upp þegar leikstjórinn Ingmar Bergman birti um svipað leyti kveðjubréf til fósturjarðarinnar. Þá hafði hann lent í harkalegri skattarannsókn sem varð til þess að hann lokaði allri starfsemi sinni í Svíþjóð og flutti til Þýskalands þar sem hann dvaldist næsta áratuginn. Fleiri og fleiri vellaunaðir Svíar flúðu land og sjálfsagt muna margir eftir því þegar tennisstjarnan Björn Borg flutti til Mónakó. Ýmis stórfyrirtæki flúðu einnig land og er Ikea líklega þar þekktast. Hvort það var nákvæmlega þetta eða ekki þá féll stjórn jafnaðarmanna í fyrsta skipti í 40 ár í kosningum um haustið eftir að Astrid birti grein sína. Líklega var það vantrú fólks á skattastefnunni sem feldi hana. Síðan hafa Svíar breytt um kúrs og reynt að hemja skattheimtuna.opinber skattur

Skattkerfið í stöðugum breytingum

Á síðustu rúmlega tíu árum, eða frá árinu 2008, hafi verið gerðar á þriðja hundrað breytingar á skattkerfinu og fjölmargir nýir skattar teknir upp. Dæmi um slíkt birtist í því að á síðasta ári var fjármagnstekjuskattur hækkaður en um leið lofað að endurskoða skattstofninn. Hvergi var minnst á slíka endurskoðun í fjárlagafrumvarpinu og Alþingi sá ekki ástæðu til að taka það til endurskoðunar. Þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp var lágt skatthlutfall rökstutt með breiðum skattstofni. Nú er skattstofninn enn breiður en skatthlutfallið hefur tvöfaldast.

Þessar breytingar birtast í hærri sköttum en eins og rakið var í síðasta pistli munu ríkisútgjöld aukast um 57 milljarða króna á árinu 2019, eða um rúmlega einn milljarð króna á viku. Ríkisútgjöld á hvern Íslending hafa aldrei verið meiri, mælt á föstu verðlagi, og eru opinber umsvif ein þau mestu meðal þróaðra ríkja.

Uppúr stendur að þegar borin er saman skattheimta á meðaltekjur nú og fyrir 10 árum sést að skattbyrði þorra almennings er mun meiri en áður. Skatttekjur ríkissjóðs á hvert heimili hafa vaxið um tæpa eina og hálfa milljón króna frá árinu 2011. Það er spurning hvenær menn ætla að staldra við og velta fyrir sér hvort þessi þróun er til góðs. Ekki síst þegar ríkissjóður er farinn að undirbúa vegaframkvæmdir með sérstökum gjöldum. Hvenær segja skattgreiðendur, hingað og ekki lengra?

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.