c

Pistlar:

17. október 2018 kl. 18:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vaxandi svartsýni á efnahagsástandið

Flestir sem rýna í íslenska hagkerfið um þessar mundir gera ráð fyrir því að krónan muni veikjast, verðbólga aukast og vextir hækka á komandi mánuðum. Hafi Íslendingar kynnst stöðugleika undanfarið þá er ljóst að hann er í hættu. Sumir tala reyndar eins og stöðugleikin sé einskis virði. Þeir vita ekki hvað er framundan.

Þau viðhorf, sem voru rakin hér að framan, komu fram í óformlegri könnun sem Greining Íslandsbanka stóð fyrir meðal lesenda sina. Flestir í könnunni telja að aðstæður í hagkerfinu séu góðar, en að þær muni annað hvort standa í stað eða versna á komandi misserum. Virðist það ríma allvel við nýlegar mælingar á Væntingavísitölu Gallup og könnunar Gallup meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins, en þar hefur komið fram vaxandi svartsýni á skammtímahorfur í hagkerfinu. Flestir greiningaraðilar keppast nú við að vara við því sem framundan er.efnah

Ótti við óraunhæfa kjarasamninga

Aðspurðir um helstu áhættuþætti í íslenska hagkerfinu nefndu ríflega 8 af hverjum 10 svarendum yfirvofandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Ferðaþjónustan og gengi krónu er einnig mörgum áhyggjuefni, svo og þróun alþjóðamála. Óhætt er að taka undir að þetta séu ein helstu áhyggjuefnin hvað varðar hagkerfið um þessar mundir. Hafa nýjustu fréttir af kröfum SGS og VR síst orðið til þess að draga úr þeim áhyggjum. Flestir ábyrgir greinendur hafa áhyggjur af því óraunhæfri kröfugerð fyrir komandi kjarasamninga. Kröfugerð sem byggir ekki á framleiðniaukningu.

Við Íslendingar ættum að vita að stutt getur verið í verðbólgu. Verðbólguhorfur til næstu ársfjórðunga hafa að mati Greiningar Íslandsbanka versnað lítillega vegna gengisveikingar krónunnar. Útlit er fyrir að verðbólga verði 3,5% í lok þessa árs og verði að jafnaði um 3,5% á árinu 2019. Enginn einn liður vegur til afgerandi hækkunaráhrifa en verðlag virðist vera að þokast nokkuð almennt upp á við. Gengislækkun krónu frá septemberbyrjun er þar mikilvægur áhrifaþáttur, ekki síst á verð matvöru, eldsneytis og annarra liða þar sem lagertími er tiltölulega stuttur.

Engin kjarnorkuvísindi

Útlit er fyrir að vöruskiptahalli í ár verði á svipuðum slóðum og í fyrra. Bráðabirgðaspá greiningardeildar Arion banka hljóðar upp á 180 til 190 milljarða króna halla á vöruskiptum í ár, en í fyrra var vöruskiptahallinn 176 milljarðar króna. Halli á vöruskiptum mun samkvæmt þessu því nema um það bil 7% af vergri landsframleiðslu (VLF). Afgangur af þjónustujöfnuði mun hins vegar væntanlega verða öllu meiri og vega þyngst í að skila hóflegum afgangi af utanríkisviðskiptum í ár. Aukin verðmæti útflutnings sjávarafurða teljast meðal gleðitíðinda ársins.

Af öllu þessu má sjá að óveðursský hlaðast upp. Ef menn eru ekki á verði þá mun þetta allt rætast; verðbólga aukast, vextir hækka, lán hækka og kaupmáttur rýrna. Hugsanlega getur atvinnuleysi skotið upp kollinum. Þetta eru engin kjarnorkuvísindi. Þetta hefur alltaf verið svona.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.