c

Pistlar:

21. júní 2018 kl. 17:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mikilvægi skóga á Íslandi

Fyrir nokkrum árum voru sex milljónir trjáa gróðursett á ári hér á landi. Í ár er áætlað að aðeins þrjár milljónir trjáa verði gróðursett. Þetta er öfugþróun í landi sem þarf að öllum líkindum að fara að kaupa heimildir til að standa við sinn hluta Kyoto-skuldbindingarinnar. Það vefst fyrir mörgum að skilja að skógrækt, almenn landgræðsla og bleyting á framræstu landi eru sársaukalitlar að­gerð­ir í loftslagsmálum og til þess að gera ódýrar. Miklu skiptir að þær eru líklega fljótvirkustu leiðirnar til að tryggja að Ísland standi við sínar skuldbindingar í loftslagsmálum. Hafa má í huga að ríkisstjórn Nýja-Sjálands vill gera sam­félagið grænna með því að gróður­settar verði á hverju ári 100 milljónir trjá­plantna í landinu. Það er ríflega 30 sinnum meira en hér en Nýja-Sjáland er tæplega þrisvar sinnum stærra en Ísland.skogur

Við upphaf landnáms er talið að um 25 til 40 prósent landsins hafi verið skógi vaxið. Í dag lætur nærri að þetta hlutfall sé um 2 prósent. Upp úr miðri síðustu öld, þegar uppblástur var sem mestur, var þetta hlutfall komið niður í 1 prósent. Þrátt fyrir mikið starf á sviði skógræktar síðustu áratugi höfum við aðeins náð að auka þetta hlutfall um annað prósent. Augljóslega má miklu breyta og í þessu geta falist mikil tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir í umhverfismálum og til að stemma stigum við aukningu koldíoxíðs í andrúmsloftinu.

Með aukinni hlýnun hefur skógrækt tekið við sér og víða má sjá áhugaverði tilfelli sjálfsprottinna skóga eins og hefur verið minnst á áður hér. Það breytir ekki þeirri staðreynd að meirihluti þess kolefnis sem binst í skógum Íslands binst í ræktuðum skógum. Öllum má vera ljóst að Íslendingar geta gert enn betur og innan við tvö prósent landsins til viðbótar þyrfti til að rækta nógu mikinn skóg til að allt kolefni sem við losum yrði bundið á ný í skógi. Þetta er meðal þess sem fram kom í áhugaverðu viðtali við Aðalstein Sigurgeirsson, fagmálastjóra Skógræktarinnar, á sjónvarpsstöðinni Hringbraut fyrir stuttu. Aðalsteinn hefur verið ötull talsmaður þess að auka skógrækt verulega og fært sannfærandi rök fyrir máli sínu. Í þessum pistlum mínum hefur verið tekið undir slík sjónarmið. Skal áréttað að skógrækt er gríðarlega áhrifamikil leið til að binda kolefni auk þess sem það bætir lífsskilyrði og getur staðið undir áhugaverðri atvinnustarfsemi í framtíðinni.

Skógar binda þriðjung

Í máli Aðalsteins kom fram að af þeim gróðurhúsalofttegundum sem mannkynið losar bindi skógar jarðarinnar um þriðjung. Til samanburðar bindi skógar Íslands einungis um 6,4 prósent. Mestur hluti af þeirri bindingu er í ræktuðum skógum, aðallega í skógum sem ræktaðir hafa verið frá því um 1990 og bindingin sé alltaf að aukast. Ef Íslendingar fjórfalda nýskógrækt frá því sem nú er, gæti bindingin orðið um miðja öldina nálægt þriðjungi þess sem nú er losað eða 28 prósent.

Aðalsteinn benti líka á viðarauðlindina sem fæst með uppvaxandi skógum. Þessarar auðlindar verði æ meiri þörf og taldi hann að í framtíðinni verði byggingar fremur reistar úr timbri, en síður úr steinsteypu enda losni um 900 kíló af koltvísýringi fyrir hvert tonn steinsteypu sem framleitt er. Á hinn bóginn bindist kolefni ef hús eru reist úr timbri og þetta kolefni geymist í byggingunni meðan hún stendur.

Á laugardag er skógardagurinn mikli. Hátíðin var lengi vel bundin við Hallormsstaðarskóg en nú ber svo við að hátíð er í 17 öðrum skógum sama dag og fjölbreytnin mikil. Því ber að fagna.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.