c

Pistlar:

15. janúar 2018 kl. 9:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sölumaðurinn Emmanuel Macron

Í nýlegri þriggja daga heimsókn sinni til Kína einbeitti Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sér að viðskiptum og efnahagsmálum. Þungamiðja heimsóknarinnar snérist um að fá tækifæri til þess að snúa við óhagstæðum viðskiptajöfnuði Frakka við Kína en hann mun nú nema um 30 milljörðum evra á ári. Macron tók að sér að selja franskar vörur, ræða efnahagsmál og efla trú Kínverja á að hann sé mikilsverður bandamaður í Evrópu. Um leið sýndi Macron aukið mikilvægi Frakka á alþjóðasviðinu undir hans stjórn. Hann bauð fram auknar fjárfestingar Frakka í skiptum fyrir betra aðgengi franskra vara í Kína.macronkina

Heimsókn Macron er fyrsta heimsókn erlends þjóðarleiðtoga síðan Xi Jinping, forseti Kína, styrkti völd sín enn frekar á þingi Kommúnistaflokks Kína í október síðastliðnum. Augljóst var að Macron kom til Kína sem fulltrúi Frakklands og Evrópusambandsins. Sérfræðingar í málefnum landanna segja að að Kínverjar líti svo á að Frakkland sé lykilríki ESB um þessar mundir. Það sást af móttökunum.

Of snemmt er að segja til um hvort ferðin hafi verið vel heppnuð. Má vera að heimsókn Steingríms J. Sigfússonar og annarra forseta norrænu þinganna hafi truflað dagskránna en ef marka má fréttir Stöðvar 2 þá fékk sú heimsókn litlu minni athygli meðal kínverskra ráðamanna! Dálítið djörf nálgun, sérstaklega þegar hugsað er til þess að Kínverjar hafa fyrst og fremst áhuga á að ræða um viðskipti við erlendar sendinefndir og þar var umboð Macron miklu skýrara en umboð norrænu þingforsetana!

Flugvélasölumaður

Ekki var gengið frá neinum stórum samningum í ferðinni en Macron lýsti því yfir að samningur um sölu á 184 þotum af A320 gerðinni frá Airbus væri á lokametrunum en það eitt og sér myndi líklega réttlæta ferðina. Rétt er þó að slá varnagla við því þar sem enn er eftir að ganga frá fjármögnun kaupanna. Með tilkynningunni um flugvélakaupin var Macron að svara gagnrýni um að ferðin sjálf hefði ekki skilað mörgum áþreifanlegum samningum og hefði fremur snúist um innistæðulítið diplómatískt hjal. Í alþjóðlegum samskiptum er hjal líka mikilvægt og sérfræðingar í málefnum landanna segja að fyrst um sinn virðist ferðin hafa skilað fremur pólitískum ávinningi en efnahagslegum. Alicia Garcia-Herrero, aðalhagfræðingur Natixis bankans, benti á að kínverska neytendur hungraði í franskar vörur nú þegar kaupmáttur þeirra er að vaxa. Kínverjar framleiða í dag sjálfir meira af því sem þeir áður keyptu frá Þýskalandi og því gætu franskar lúxusvörur orðið vinsælar samhliða vaxandi neytendavörumarkaði í Kína.

Fulltrúi Frakklands eða Evrópu?

Yfirlýsingar Macron í kringum ferðina sýndu það mikla sjálfstraust sem umlykur stjórn hans til þessa. Hann byrjaði á að tilkynna að heimsókn hans sýndi að Evrópa væri að ná vopnum sínum („Europe is back”). Philippe le Corre, rannsóknarprófessor hjá Harvard Kennedy School tók undir þetta og sagði í viðtali við CNBC sjónvarpsstöðina að heimsóknin staðfesti stöðu Macron meðal leiðtoga heimsins. Hugsanlega væri hann leiðtog Evrópu þessa stundin og tekur þannig undir það sem áður hefur verið sagt á þessum vettvangi.

Macron kaus að hefja heimsókn sína í borginni Xi’an í Shaanxi héraði í miðju Kína. Þar er upphaf silkileiðarinnar fornu í Kína en Xi Jinping, forseti Kína, hefur sett endurreisn þeirrar samgönguleiðar á oddinn undir verkheitinu Belta og vegagerða frumkvæðið (e. Belt and Road Initiative (BRI)). Macron hefur sýnt talsverðan áhuga á þessari framkvæmd sem ætlað er að efla samgöngur við Kína landleiðina, risavaxið verkefni, meira að segja á kínverska mælikvarða. Áður en Macron fór til Kína höfðu verið blendin viðbrögð við framtakinu sem á að kosta 900 milljarða Bandaríkjadala. Þeim efasemdum hefur nú verið eytt en í viðtölum við kínverska fjölmiðla lýsti Macron yfir ánægju sinni með framtakið sem hann sagði að myndi styðja við verslun og viðskipti í framtíðinni.

Gaf forseta Kína hest

Macron hóf ferðina með því að færa Xi Jinping hestinn Vesuvius, 8 ára gelding. Harla óvenjuleg gjöf en hesturinn kemur úr riddaraliðssveit Frakklands og eru fréttaskýrendur ekki á einu máli um hvernig hesturinn nýtist forseta Kína. Macron sagði að gjöfinni væri ætlað að sýna einstakt samband ríkjanna um leið og hann vitnaði í de Caulle hershöfðingja sem sagði Kína elsta menningarríki heims, jafnvel eldra en mannkynssöguna. Kínverskir fréttamiðlar voru hrifnir af gjöfinni og sögðu hana í ætt við þá pöndu-diplómatíu sem Kínverjar ástunda með því að færa gestgjöfum sínum gjarnan panda unga. „Hann virðir greinilega sögu Kína,” var haft eftir Ding Yifan, sérfræðingi í frönskum málefnum hjá Kínverska rannsóknar- og þróunarsetrinu (China Development Research Centre). Hugveita sem styrkt er af kínverska ríkinu.kinamac

Það er ekki hægt annað en að rifja upp að þegar David Cameron heimsótti Kína árið 2013 þá færði hann Xi Jinping áritaða landsliðstreyju frá enska liðinu. Þegar leiðtogi kommúnistaflokksins kom til Englands 2015 færði Elísabet Bretadrottning honum bók með sonnettum Shakespeare. Samanburðurinn virðist Macron í hag en staðreyndin er sú að Kínverjar hafa að hluta til misst áhuga á Bretlandi í kjölfar Brexit. Þeir telja nú að viðskiptahagsmunum sínum sé betur borgið annars staðar í Evrópu. Staðreynd sem Macron er sér mjög meðvitaður um. Forsætisráðherra Breta, Theresa May, hefur hvað eftir annað orðið að aflýsa ferð til Kína vegna vandamála heima fyrir en nú er ráðgert að hún fari þangað í lok janúar. Sú ferð verður án efa borin saman við ferð Macron.

Margt situr eftir að lokinni heimsókn Macron. Áþreifanlegast er ákvörðun um að opna franskt menningarhús í Shanghai, einhverskonar kínversk-frönsk útgáfa af Pompidou-safninu mun vera á teikniborðinu. Einnig voru undirritaðir samningar á sviði orkumála, menningar, íþrótta- og heilbrigðismála. Viðskiptasamningar upp á um 10 milljarða evra voru einnig staðfestir. Ótvírætt er að heimsóknin styrkti stöðu Macron, bæði heima fyrir og á hinum alþjóðlega vettvangi.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.