c

Pistlar:

7. janúar 2018 kl. 18:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Pólitík Emmanuel Macron

Sumir pólitískir skýrendur segja að Emmanuel Macron hafi komist til valda í Frakklandi með því að segja fólki það sem það vildi heyra. Pólitík hans sé samsuða upp úr vinsældalistum umræðunnar, hann sé því nokkurskonar samnefnari hinnar pólitísku réttu umræðu hverju sinni. Meiri verði popúlisminn ekki. Það er nokkuð til í þessu en eins og oft áður segir það ekki alla söguna. Emmanuel Macron hefur reynst fær um að skilgreina eigin stjórnmálastefnu sjálfur og þá um leið sjálfan sig og hlutverk sitt fyrir frönskum kjósendum. Með öðrum orðum, andstæðingum hans hefur ekki tekist að skilgreina og afmarka hann á sama hátt og við erum að sjá gerast með Donald Trump í Bandaríkjunum sem á nú í stórkostlegum erfiðleikum, meðal annars vegna þess að hann er í stríði við fjölmiðla um eigin ímynd. Á sama tíma hefur Macron nokkuð skýra málefnaskrá sem kjósendur í Frakklandi hafa greinilega tekið alvarlega. Lykilatriði stefnuskrárinnar voru margvísleg raunhæf verkefni eins og vakin var athygli á í pistli hér fyrir stuttu.

Í áramótaávarpi Macron til þjóðarinnar, sem flutt var frá Élysée höll á nýársdag, varaði hann enn á ný við vaxandi þjóðernishyggju og einangrunarstefnu. Um leið talaði hann fyrir aukinni samstöðu og endurnýjuðu samstarfi innan Evrópu. „Evrópa er Frakklandi mikilvæg og við komumst ekki af án hennar,” sagði Macron í ávarpi sínu. Hann tiltók að nýhafið ár yrði markvert um margt og sjálfsagt taka þeir undir það sem bíða eftir því að pólitík Macron fari að birtast í verkum og stefnu hans.macron mcnb

Talar til hægri og vinstri

Ávarp Macron sýndi glögglega hve auðvelt hann á með að tala til fólks hvar í flokki sem það er en það var lykill að hinum stóru sigrum hans á síðasta ári. Franskir kjósendur voru orðnir þreyttir á því sem þeir töldu öfgar, bæði á hægri og vinstri væng franskra stjórnmála. Ungir og menntaðir kjósendur þyrptust að Macron sem bar með sér kraft og endurnýjunarmátt sem ekki hafði sést lengi í frönskum stjórnmálum. „Macron hefur endurvakið bjartsýni í frönskum stjórnmálum,” hafði vikuritið The Economist eftir forstjóra í einu af stærstu fyrirtækjum Frakklands (CAC 40). Franski rithöfundurinn Michel Houellebecq sagði að það væri eins og Macron hefði veitt frönsku þjóðinni „hópmeðferð”, óvenju jákvæð skilaboð frá þessum umdeilda rithöfundi sem er líklega þekktastur fyrir tómhyggju eins og birtist í sögum hans sem undantekningalaust enda illa.

Staðreyndin er sú að Macron á auðvelt með að sannfæra fólk frá hægri og vinstri. Í samanburði við andstæðing hans í forsetakosningunum var hann eins og rödd hinnar klæðskerasaumuðu skynsemi sem er vissulega óvenjulegt hjá manni sem kemur úr bankaheiminum. Og það er auðvitað merkilegt að fólk skuldi sjá hann í þessu ljósi. Margir stjórnmálaskýrendur spyrja sig hvernig fyrrverandi bankamaður hjá Rothschild & Cie Banque geti orðið að táknmynd byltingarkenndar endurnýjunar en um leið haft yfirbragð staðfestu embættismannakerfisins sem öllu ræður í Frakklandi. Má vera að æska og karlmannlegur ljómi hans hafi haft sitt að segja en það er auðvitað sérstakt að Macron skuli takast að samþætta þau öfl sem stóðu að baki kjöri hans. Mikilvægast er þó að hafa í huga að hann vann rækilega fyrir því. Skipulag og hugmyndafræði framboðs Macron var afrakstur mikillar vinnu sem meðal annars var unnin af ungu vel menntuðu fólki sem þyrptist að honum og myndaði gríðarlega vinnusaman og öflugan kjarna í kringum hann. Um leið var unnið mikið starf við að efla grundvöll og bakland framboðs Macron.Macron og lið hans

Í nóvemberhefti tímaritsins Vanity Fair var athyglinni beint að nánustu ráðgjöfum Macron en umfjöllun blaðsins dró ekki úr hetjumynd þessara heitustu pólitísku riddara Frakklands. Þetta eru ungir vel menntaðir menn eins og Stanislas Guerini, Cedric O, Emmanuel Miquel, Ismail Emelien og Benjamin Grivaux en sá síðastnefndi hefur tekið að sér að vera talsmaður ríkisstjórnarinnar. Meðfylgjandi mynd birtist af hópnum með umfjöllun Vanity Fair. Við eigum án efa eftir að heyra meira frá þeim en nú hlaupa þeir um ganga Élysée hallar og reyna að endurnýja stjórnmál þessa fornfræga ríkis. Meðal annars með nýrri orðræðu sem sést vel í orðum og ræðum Macron sem talar gjarnan um að fólk vilji fá að ráða sjálft sinni framtíð, nokkuð sem fellur ungu fólki án efa vel í geð.

Glöggur á pólitísk skipti

Frakkland var í kreppu þegar Macron ákvað að láta til sín taka og stofna En Marche! (Hreyfingin eða kannski frekar Á hreyfingu). Hann var auðvitað ekki neinn nýgræðingur enda verið innan valdakjarna franskra stjórnmála síðan 2012, frá byrjun sem hálfgerður gulldrengur François Hollande, sem náði að verða óvinsælasti forseti Frakklands fyrr og síðar. Áður átti Macron stuttan og farsælan bankaferil og hagnaðist ágætlega þar, meðal annars með á yfirtöku Nestlé á einni stærstu framleiðsludeild Pfizer lyfjarisans. Samningurinn gerði Macron ríkan og hann var því án fjárhagsáhyggja þegar hann steypti sér í stjórnmálin.

Frakkland hefur lengi átt í kreppu sem að hluta til er forystukreppa. Miðstýrt regluverk stjórnsýsluelítunnar hafði dugað landinu lengst af ágætlega en um leið hafði landið verið að staðna. Frakkland var til skamms tíma þekkt fyrir frammúrstefnulegar lausnir (og bíla) og öflugan iðnað en undanfarna áratugi hafði hallað undan fæti með skuldasöfnun og þyngra regluverki. Skattastefnan var orðin ófær um að fjármagna ríkið og skuldbindingar þess um leið og hún dró augljóslega máttinn úr atvinnulífinu. Frá 2000 til 2016 var aukning landsframleiðslu á mann minni en meðaltal OECD sagði til um. Vinstri og hægri stjórnir skiptust á að stjórna landinu en voru ófærar um að koma efnahagslífinu í gang og juku frekar á vandann. Bækur voru gefnar út í Frakklandi sem lýstu ekki mikilli bjartsýni eins og titlarnir „Franskt sjálfsmorð” og „Óhamingjusöm sjálfsmynd” sýndu.

Macron taldi sig hafa séð ástæðuna fyrir því að svona var komið. Frakkland var í kreppu þess sem ekki vill breytast, þróast eða aðlagast. Það var meðal annars vegna þess að það var ekki boðið upp á neina pólitíska leiðsögn þegar kom að ójöfnuði, heimsviðskiptum eða umhverfismálum. Stjórnmálaöflin töluðu öll í sitt hvora áttina þegar þessi mál voru til umræðu. „Frönsk stjórnmál hert í málefnum eftirstríðsáranna, bæði til hægri og vinstri, eru komin að niðurlotum vegna eigin ósamkvæmni og sundurlyndis og hafa þar af leiðandi engin svör við vandamálum nútímans,” sagði Macron í samtali við viðskiptatímaritið The Economist síðasta sumar en blaðið hefur sýnt stefnu hans mikinn áhuga.

Munu kjósendur sýna þolinmæði?

Auðvitað er Macron að segja margt það sama og forverar hans. Nicolas Sarkozy lofaði að standa fyrir endurbótum í Frakklandi án þess að kasta evrunni. Hollande lofaði því sama og nú hefur hans gamli efnahagsráðherra, Emmanuel Macron, endurnýjað loforðið. Nú er kannski spurningin helst sú hvort kjósendur hafa þolinmæði til að bíða eftir lausnum Macron, hafi hann þær á annað borð?erdogan

Eftir aðeins 100 daga í embætti voru vinsældir Macron komnar niður í 36%, lægra en franskir forsetar höfðu séð áður. Síðar hefur landið risið á ný og franskir kjósendur eru síður en svo búnir að yfirgefa hann. En þeir munu ekki hafa endalausa þolinmæði. Macron hefur gripið tækifærið og gerir nú ótvírætt kröfu til þess að vera kallaður leiðtogi Evrópu. Nú, þegar óvissa ríkir bæði í Bretlandi og Þýskalandi er hann sá leiðtogi Evrópu sem horft er til. Það sást glögglega í byrjun árs þegar for­seti Tyrk­lands, Recep Tayyip Er­dog­an, mætti í opinbera heim­sókn í Frakklandi. Erdogan er nú að reyna að vinna sig til baka í áliti í Evrópu og því heppilegt að hitta hinn nýja leiðtoga Evrópu eftir að vera búinn að móðga flesta hina. Macron talaði eins og leiðtogi hins frjálsa heims og bauð Tyrkjum upp á franska lausn í formi sérstaks samstarfssamnings. Ef af honum verður er ljóst að Macron er maður stóru lausnanna.

Í næsta pistli munum við halda áfram að fjalla um Macron og einbeita okkur að efnahagstefnu hans.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.