c

Pistlar:

21. apríl 2017 kl. 17:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjá Napólí og dey

Napólí er í dag þriðja stærsta borg Ítalíu og höfuðborg suðursins þar sem hún stendur við norðanverðan Napólíflóa. Á báðar hendur eru ógnvekjandi eldfjöll sem hafa í gegnum tíðina umbreytt landslaginu og fært með sér gríðarlega eyðileggingu eins og sest best af eyðingu Pompei og Herculaneum þegar Vesúvíus nánast sprakk árið 79 e. Kr. Vestur af borginni er síðan askjan Campi Flegrei sem á sér ekki síður ógnvekjandi sögu en Vesúvíus. Reglulega kvikna vangaveltur um að önnur hvor eldstöðin sé að fara að taka við sér. Það þarf ekki að hafa mörg orð um áhrif þess. Svæðið byggðist áður en menn áttuðu sig á hættunni, sem getur stafað af Campi Flegrei en saga Vesúvíusar er þekktari en síðast gaus fjallið 1944. Það er því ekki nema von að máltækið, „sjá Napólí og dey”, sé mönnum tamt! Þess má geta að Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur mikið rannsakað Vesúvíus og skrifað fróðlegar greinar um fjallið á blogg sitt eins og lesa má hér.

Talið er að fyrsta borg Grikkja á Ítalíu hefi verið Cumae, reist um 800 f. Kr., en Cumae er í austur hluta öskjunnar Campi Flegrei. Skömmu síðar byggðist Napólí, eða Neapolis, Nýborg, nokkurskonar New York forn-Grikkja. Þannig fluttist grísk menning til Ítalíuskaga eins og umfangsmiklar fornminjar bera vott um.napoli  

Borgin á sér langa og umbrotasama sögu og hefur að sumu leyti átt erfitt með að fóta sig í nútímanum. Í borginni sjálfri býr ein milljón íbúa en á Stór-Napólísvæðinu eru um þrjár milljónir manna. Napólí er um margt heillandi með sínar umfangsmiklu menningarminjar en líður fyrir óstjórn og ákveðið sinnuleysi heimamanna. Það er til dæmis ótrúlegt að sjá nánast hvert einasta hús útkrassað í veggjakroti eins og meðfylgjandi mynd sýnir. - Kirkjur og gosbrunnar, ekkert mannvirki er undanskilið. Þá er víða að sjá niðurníddar byggingar þó vissulega séu stórkostleg mannvirki um alla borg. Umgengni er í takt við það þó víða megi sjá breytingar frá því fyrir 14 árum þegar pistlahöfundur var þar síðast. Ný fjármálamiðstöð hefur risið, efnahagurinn hefur verið að batna og samgöngur líka og jarðlestakerfi borgarinnar hefur tekið stakkaskiptum.

En upplifun fólks af Napólí er æði misjöfn, margir taka ástfóstri við hana á meðan öðrum finnst hún óhrein, hávaðasöm og um fram allt, varasöm. Hún er andstæða bæjarins Sorrento sunnan við flóann, þangað sem yfirstétt Norður-Evrópu sótti gjarnan til hvíldar og endurnæringar. Þar sést til dæmis ekki veggjakrot. Einn innfæddur Sorrento-búi sagði við pistlahöfund að Napólíbúar væru latir og sjálfur Mussolini hvað hafa kallað þá ónytjunga og letingja sem aðeins gætu sungið og étið rjómaís! Orðið lazzaróni er komið frá Napólí en það var heiti á lágstéttinni.  

Camorra

En efnahagur Napólí verður tæpast ræddur nema í tengslum við Camorra - hina heimagerðu útgáfu þeirra af mafíunni. Wikipedia segir okkur þá sögu að Camorra hafi upphaflega verið leynisamtök stofnuð af glæpamönnum í Napólí um 1820. Þeir hafi orðið áhrifamiklir í stjórnmálum og síðar alræmdir fyrir fjárkúgun og hermdarverk. Á Ítalíu mun það tíðkast að kenna aðeins Cosa Nostra á Sikiley við mafíu en hópa á skaganum öðrum nöfnum. Uppruni Camorra og heitisins eru lík þar sem veðmálaleikur sem kallaður var „morra” var spilaður í Napólí. Stjórnvöld bönnuðu leikinn ásamt öðrum veðmálum. Fljótlega mútuðu nokkrir menn lögreglunni til að láta þetta í friði og seldu síðan öðrum vernd frá lögreglunni. Og þannig hófst starfsemin sem nær allt til okkar tíma. Camorra er samofin samfélaginu og heimamenn hafa enga trú á að mafían verði rifin upp með rótum. Til þess liggja ræturnar of djúpt. En mafían verður að gæta ákveðins hófs í aðgerðum sínum og til dæmis ekki drepa of marga! Með öðrum orðum, ekki kalla yfir sig athygli. Það er eilífðarvandamál í starfi mafíunnar að þvo peninga og nú um stundir gerir hún það helst með því að fjárfesta í ferðamennsku, meðal annars í Sorrento! Hvort sem það eru til marks um nýja tíma eða ekki þá hafa konur víst verið að komast til aukinn áhrifa innan Camorra síðustu áratugi.napoli2

Tónlistarhöfuðborg

En Thor Vilhjálmsson rithöfundur benti réttilega á að Napólí er höfuðborg hjartans. Og þar á söngurinn heima. Á átjándu öld var Napólí nokkurskonar tónlistarhöfuðborg Evrópu og tónlistarmenn hvaðanæva úr álfunni héldu þangað til að læra og starfa. Á þeim tíma bjuggu innan við hálf milljón manna í borginni sem var mikið á mælikvarða þeirra tíma. Öldina á undan var Napólí næst fjölmennasta borg Evrópu, aðeins París var fjölmennari. Á þessum tíma voru fjórir stórir tónlistarskólar í Napólí en til fróðleiks má geta þess að íbúar Parísar eru í dag um fjórtán milljónir talsins en þar er aðeins einn stór tónlistarskóli.

En það voru ekki einungis margir tónlistarskólar í Napólí. Á þessum tíma voru 2.000 kirkjur í borginni og í hverri kirkju var kór, hljómsveit og tónlistarstjóri sem var tónskáld eða taldi sig í það minnsta vera það. Þau ógrynni af tónlist sem urðu til í Napólí á þessum tíma eru gleymd í dag og Napólí sjálf ekki nema svipur hjá sjón. Fræðimenn hafa eytt ómældum tíma í að fara yfir þau handrit sem enn er að finna í Napólí, en einnig er þar að finna frásagnir af flutningi og uppsetningu verkanna sem er ómetanlegt þegar þau eru búin undir útgáfu.

Mikið tjón í stríðinu

Ítalía hafði ekki mikinn heiður af þátttöku sinni í heimsstyrjöldinni síðari. Eftir að sókn bandamanna hófst norður eftir Ítalíu árið 1944 var lítið eftir af öxulveldunum og það kom í hlut Þjóðverja að verjast sókn bandamanna. Ítalir sjálfir vildu ljúka stríðinu sem fyrst en landið varð fyrir talsverðu tjóni. Er talið að í stríðinu hafi um 20.000 hús eyðilagst í Napólí. Hverfin kringum höfnina urðu fyrir sprengjum og það gekk seint að byggja upp aftur.

Ekki verður minnst á Napólí án þess að geta matarmenningarinnar en þar eru margir Michelin staðir. Þess má geta að árið 2015 voru 332 veitingastaðir á Ítalíu sem höfðu fengið viðurkenningu Michelins, 285 staðir voru með eina stjörnu, 39 með tvær stjörnur og átta með þrjár stjörnur. Pizzan á sinn fæðingarstað í Napólí og þangað verður varla komið án þess að snæða eins og eina, þó að þjónustan geti verið hæg eins og pistlahöfundur fékk að kynnast í ferð sem einmitt byggðist á þröngum tímaramma! Við snæddum á veitingastað sem stofnaður var um miðja 18. öld - í gömlu borgarhliði og þjónninn hvarf í hádegismat þegar hann hafði tekið pöntunina!

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.