Mikill viðsnúningur í rekstri Isavia

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Isavia tapaði samtals 617 milljónum á síðasta ári, en hins vegar var myndarlegur rekstrarhagnaður af starfseminni, eða um 5,2 milljarðar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA). Til samanburðar var heildarafkoma samstæðunnar neikvæð um 321 milljón í fyrra og rekstrartapið nam 810 milljónum.

Tekjur félagsins jukust um 75% milli ára og voru 36,5 milljarðar í fyrra. Voru þær um 95% af tekjum Isavia fyrir faraldurinn.

Samtals fóru ríflega 6,1 milljón farþega um Keflavíkurflugvöll í fyrra, en árið áður voru farþegarnir 2,1 milljón. Árið 2019, fyrir faraldurinn, var fjöldi farþega um völlinn 7,2 milljónir.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að neikvæð gengisáhrif langtímalána hafi numið 868 milljónum í fyrra, en árið áður voru gengisáhrifin jákvæð upp á tæpa tvo milljarða.

„Árið 2022 markaði þann viðsnúning sem beðið var eftir að loknu tveggja ára óvissutímabili heimsfaraldurs,“ er haft eftir Sveinbirni Indriðasyni, forstjóra Isavia, í tilkynningunni.

Þá er vísað til orða Sveinbjörn um að endurheimt eftir faraldur hafi gengið afskaplega vel og að í vetur sé sætaframboð til og frá Keflavíkurflugvelli 12% meira en fyrir faraldurinn. „Á flugvöllunum í Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi og Helsinki, sem við berum okkur gjarnan saman við, hafi verið 8-25% minna sætaframboð,“ er haft eftir honum.

Farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir því að fjöldi farþega verði meiri á þessu ári en hann var árið 2019. Á sama tíma gerir spá frá samtökum alþjóðaflugvalla í Evrópu (ACI Europe) ráð fyrir að fjöldi farþega sem fer um evrópska flugvelli á þessu ári verði einungis um 91% af þeim fjölda sem fór um flugvellina árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK