Ætla ekki að tjalda til einnar nætur

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel. Ljósmynd/Baldur K

Hátæknifyrirtækið Marel fagnar 40 árum í dag, 17. mars. Marel á rætur sínar að rekja til rannsóknarverkefnis við Háskóla Íslands, þar sem kannaðir voru möguleikar á að nýta rafeindatækni við vigtun og skráningu í sjávarútvegi. Fyrirtækið var stofnað árið 1983 í framhaldi af samstarfi háskólans og Sambandsfrystihúsanna, með það að markmiði að auka nýtingu og framleiðni í íslenskum sjávarútvegi. Fyrstu vörurnar sem Marel þróaði voru landvog og sjóvog sem frá fyrsta degi hafði það markmið að nýta gögn til að bæta sjálfbærni og arðsemi í rekstri. Fyrirtækið framleiðir í dag hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausnir sem nýtast í allri prótínframleiðslu.

„Rætur félagsins liggja í að sinna þörfum sjávarútvegs. Í dag erum við leiðandi fyrirtæki í lausnum, þjónustu og hugbúnaði til að styðja við sjálfbæra og hagkvæma framleiðslu á kjúklinga-, kjöt- og fiskmarkaði,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, í samtali við Morgunblaðið í tilefni afmælisins.

Um 10% starfsmanna á Íslandi

Árni Oddur kom inn í Marel sem fjárfestir árið 2004. Hann varð stjórnarformaður ári síðar en hefur verið forstjóri félagsins í um áratug, eða frá 2013. Áður var hann forstjóri Eyris Invest, sem er kjölfestufjárfestir í Marel. Eyrir Invest á í dag um 20% hlut í Marel.

Þegar Árni Oddur er beðinn um að lýsa fyrirtækinu í dag segir hann að það einkennist fyrst og fremst af mannauði.

„Við erum í dag 8.000 frumkvöðlar um allan heim sem sinna þörfum viðskiptavina í yfir 140 löndum,“ segir hann. Um 800 starfsmenn félagsins starfa hér á landi en Árni Oddur sagði á Iðnþingi í síðustu viku að félagið ætti sínar sterkustu rætur hér á landi.

„Viðskiptavinir okkar eru allt frá smærri vinnslum, til alþjóðlegra leiðandi matvælaframleiðanda og verslanakeðja. Til að setja þá staðreynd í samhengi, þá eru helmingslíkur á að helgarinnkaup neytenda hjá Walmart eða Costco í Bandaríkjunum hafi farið í gegnum lausnir frá Marel. Við snertum líf fólks á hverjum degi, þar sem neytendur sækjast eftir ljúffengum, hollum og hagkvæmum matvælum sem framleidd eru á sjálfbæran máta.“

Hann segir að félagið leggi áherslu á að starfsfólk þess um allan heim spegli þau samfélög þar sem félagið starfar.

„Við erum stolt af góðu kynjajafnvægi í stjórnendastöðum, góðri aldurssamsetningu starfsfólks og stöðugri endurmenntun. Með því skiljum við best strauma og stefnur hverju sinni. Við snertum einnig daglegt líf okkar viðskiptavina, á sama tíma og við höfum lagt okkar lóð á vogarskálar til að umbreyta matvælamarkaði, höfum við umbylt Marel.“

Ævintýralegur vöxtur

Árni Oddur segir að stofnár Marel (árið 1983) sé merkilegt á margan hátt, því það er árið þar sem fiskveiðistjórnunarkerfið – sem gjarnan er nefnt kvótakerfið – var að fæðast hér á landi.

„Það er undirstaðan fyrir allar þær fjárfestingar sem eiga sér stað í sjávarútveginum. Þetta ár er mér í fersku minni vegna þess að þá var ég 14 ára á gólfinu í Bæjarútgerð Reykjavíkur. Nýtingarhlutfallið í sjávarútvegi var þá í kringum 60%, en er núna að nálgast 100%,“ segir Árni Oddur.

Við það bætir hann að íslenskur sjávarútvegur hafi þá sérstöðu að vera arðbær og félagið hafi vaxið með viðskiptavinum sínum. Jafnframt hafi félagið haft framsýni til að vera í fremstu röð í fjárfestingum og hönnun lausna fyrir iðngreinina.

Marel var skráð á íslenskan hlutabréfamarkað árið 1992, og segir Árni Oddur að með skráningu á markað hafi félagið fengið meiri formfestu í reksturinn sem og aukinn stuðning og aðhald frá hluthöfum. Starfsmenn félagsins voru 45 talsins við skráningu og heildarvelta um sex milljónir evra. Frá skráningu hefur árlegur vöxtur félagsins verið 20% að meðaltali. Með öðrum orðum, þá hafa tekjur félagsins þrjúhundruðfaldast á síðastliðnum þrjátíu árum.

Stefna á hærra hlutfall tekna af þjónustu og hugbúnaði

Fyrirtækið hefur lagt aukna áherslu á þjónustutekjur og hugbúnaðartekjur undanfarin ár, sem voru um 10% heildartekna árið 2005.

„Í dag nema stöðugar tekjur frá þjónustu og hugbúnaði 40% af heildartekjum,“ segir Árni Oddur.

„Þetta er mikilvægt því að eitt er að setja upp kerfin fyrir viðskiptavinina og annað er að halda virðiskeðju matvæla gangandi. Sölu- og þjónustunet okkar er svæðaskipt á milli sex heimsálfa þar sem starfsmenn eru heimamenn og þekkja markaðinn og neysluvenjur neytenda vel. Þarna erum við vel sett, þar sem alþjóðaviðskipti eru að færast í mun meiri svæðaskiptingu en áður, jafnt á matvælamarkaði sem allri aðfangakeðju iðnfyrirtækja.“

Þá segir hann að félagið hafi sett sér metnaðarfull markmið um að á árinu 2026 verði þriggja milljarða evru velta og þjónustu- og hugbúnaðartekjur verði 50% af þeirri veltu.

Ekki bara fiskur

Uppruna Marel má rekja til lausna sem hannaðar voru fyrir íslenskan sjávarútveg og tengja líklega margir Íslendingar Marel fyrst og fremst við hann. Hins vegar er raunveruleikinn sá að fiskur tengist um 11% af öllu því sem Marel gerir, en kjúklingurinn er nær 50%.

„Kjúklinganeysla í Bandaríkjunum og Evrópu hefur fjórfaldast á hvern neytanda síðan Marel var stofnað,“ segir Árni Oddur.

Hann bætir við að mikilvægi sjávarútvegsins fyrir Marel sé ótvírætt. Þar hafi mikilvægar vörur verið þróaðar og fyrst litið dagsins ljós, til að mynda röntgentæknin sem nýtist til að finna bein í fiski, kjúklingi og kjöti.

„Eftir vel heppnaða yfirtöku á ­Wenger á síðasta ári erum við einnig leiðandi á ört vaxandi markaði plöntupróteina svo og í gæludýrafóðri. Gæfa okkar hefur verið að fylgja ávallt skýrri framtíðarsýn og útvíkka starfsemi okkar skref fyrir skref,“ segir hann.

Nauðsynlegar til að vaxa

„Það sem vakti áhuga okkar feðga á að fjárfesta í Marel árið 2004, var að Marel var geysilega sterkt í að búa til lausnir. Á sama tíma gat það lært mikið og þróast áfram í alþjóðavæðingunni með áherslu á yfirtökur á öðrum félögum í greininni,“ segir Árni Oddur aðspurður um þær fjölmörgu yfirtökur sem Marel hefur ráðist í. Félagið hefur ráðist í yfirtökur á 16 fyrirtækjum frá árinu 1997 og helmingur þeirra hefur átt sér stað á síðastliðnum fimm árum. Þá má geta þess að frá stofnun hefur Marel tekið yfir 39 fyrirtæki.

„Ég held að við hefðum ekki orðið svona góð í sölu og markaðssetningu hjá Marel ef við hefðum ekki farið í yfirtökur og lært,“ segir hann.

„Við vöxum með stöðugri nýsköpun og með nálægð við viðskiptavini um allan heim og við flýtum vextinum með yfirtökum. Nánast allar yfirtökur miða að því að auka vöruframboð og virði sem við getum veitt viðskiptavinum okkar. Í rauninni köllum við yfirtökur í Marel að sameina krafta okkar með nýjum félögum, til hagsbóta fyrir viðskiptavini.“

Tjalda ekki til einnar nætur

Hlutabréfaverð í Marel hefur á undanförnu ári lækkað um tæp 27%. Gengi bréfa í félaginu náði hámarki undir lok ágúst 2021, þegar það nam rúmlega 970 kr. á hlut og hafði þá hækkað nær stöðugt í rúm tvö ár. Þá tók hins vegar við nokkur lækkun og gengi bréfa náði lágmarki undir lok október sl. þegar það nam um 440 kr. á hlut. Það nemur í dag rúmum 540 kr. á hlut. Rétt er að geta þess að þrátt fyrir lækkun á liðnu ári hefur gengi félagsins hækkað um 13% á þremur árum og um 45% á fimm árum.

Marel hefur þó þurft að taka á honum stóra sínum. Um mitt ár í fyrra var ákveðið að fækka starfsmönnum um 5% á heimsvísu til að lækka kostnað, og því misstu um 400 starfsmenn vinnuna.

Aðspurður um lækkun hlutabréfaverðsins og fyrrnefndar uppsagnir segir Árni Oddur að heimurinn sé að breytast hratt og nauðsynlegt hafi verið að ráðast í fjárfestingar í sjálfvirknivæðingu og stafrænni byltingu hjá Marel líkt og félagið geri fyrir viðskiptavini. Þess má geta að nær öll tæknifyrirtæki heimsins hafa síðustu misseri ráðist í hópuppsagnir. Þar má nefna Google, Facebook, Amazon og Spotify svo fáein séu nefnd.

„Aðfangakeðja í öllum iðnaði er að breytast, og við erum ekki að tjalda til einnar nætur,“ segir hann.

Marel hefur frá upphafi fjárfest 6% af veltu hvers árs í nýsköpun og aldrei slegið þar af. Hann segir yfirtökur vera einskiptiskostnað sem beri síðar ávöxt.

„Við höfum aukið þjónustutekjur á hverjum ársfjórðungi síðustu þrjú ár, skref fyrir skref, og erum við að byrja að sjá að fjárfestingar í innviðum eru farnar að skila auknum hraða og bættri þjónustu við viðskiptavini. Fyrirtækið og starfsemin er nú skalanlegri sem þýðir að við getum aukið tekjur hraðar en starfsmannafjölda, horft fram á veginn. Viðskiptavinir okkar sjá þörfina á sjálfvirknivæðingu enda er erfiðara að ráða starfsfólk en nokkurn tímann áður og minni hreyfing er á vinnuafli milli landa. Þetta gerist á sama tíma og verð hækkar um allan heim og þá skiptir máli að hámarka nýtingu á hráefni og notkun á orkugjöfum. Marel á lausnirnar sem þarf til að stýra nútímamatvælaframleiðslu í þessu umhverfi. Neytendur eru kröfuharðir á framboð og gæði og það sömuleiðis ýtir undir þörfina á hugbúnaði og vélum frá Marel. Við stöndum við rekstrarmarkmið okkar og markmið um þjónustutekjur sem hlutfall af heildartekjum en á sama tíma er mikill innri vöxtur.“

Árni Oddur bætir við að mörg iðnfyrirtæki sem eru á svipuðum stað og Marel, sem hafa fjárfest mikið í nýsköpun og innri uppbyggingu hafi séð lækkun á hlutabréfaverði.

„Það er skoðun sumra að fáir fjárfestar skilji þennan leik. Mín skoðun er að það eru ekki bara fjárfestarnir heldur við forstjórarnir og stjórnir fyrirtækjanna sem þurfum að tala mjög skýrt um hvað við ætlum að fá út úr þessum fjárfestingum,“ segir hann.

40 ára ferðalag

Árni Oddur lítur björtum augum fram veginn.

„Okkur hefur tekist að vera í fremstu röð á sviði matvælaframleiðslu í fjóra áratugi með nýsköpun og sjálfbærni að leiðarljósi. Við ætlum að halda áfram að umbylta matvælamarkaði og í samstarfi við viðskiptavini okkar þróast í takt við nýjar þarfir neytenda Á sama tíma og fólki fjölgar, þarfir neytenda þróast og ákall á sjálfbærni heldur áfram þá eykst þörfin fyrir lausnir frá Marel Fólkið okkar og sterkt samband við viðskiptavini hefur verið drifkrafturinn á bak við velgengni okkar í öll þessi ár. Við erum stolt af sögunni, ferðalaginu í 40 ár og við hlökkum til næstu 40 ára,“ segir hann að lokum. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK