Credit Suisse óskar eftir stuðningi seðlabankans

Gengið framhjá höfuðstöðvum Credit Suisse í New York í dag.
Gengið framhjá höfuðstöðvum Credit Suisse í New York í dag. AFP

Svissneski bankinn Credit Suisse hefur biðlað til seðlabanka landsins að gefa frá sér opinberlega stuðningsyfirlýsingu til handa bankanum.

Frá þessu greindi dagblaðið Financial Times nú fyrir skömmu og hefur eftir heimildarmönnum sínum.

Bankinn, sem þegar var viðriðinn ýmis hneykslismál áður en bankar vestanhafs tóku að falla, fékk slæma útreið á hlutabréfamarkaðnum í dag eftir að ljóst varð að stærsti hluthafinn, Saudi National Bank, útilokaði að leggja til hans meira fé.

Gengi hlutabréfa í Credit Suisse hrundi um allt að 30% í dag en þegar markaðir í Evrópu lokuðu nú síðdegis nam gengisfallið rúmlega 24%.

Grannt fylgst með Credit Suisse vestanhafs

FTSE 100-vísitalan í Lundúnum féll um 3,8% í dag, á versta degi sínum frá því Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir rúmu ári.

Gengi evru féll þá um 1,8% gagnvart bandaríkjadal, en svo mikið hefur hún ekki fallið á einum degi frá því í mars 2020, þegar faraldur kórónuveirunnar var skyndilega í algleymingi.

Gengi bréfa í helstu bönkum Evrópu féll sömuleiðis í dag. Bréf í Barclays, Commerzbank, BNP Paribas og Societe Generale hrundu þannig öll um 7-12% í verði.

Embættismenn í bandaríska fjármálaráðuneytinu fylgjast einnig grannt með Credit Suisse og hafa verið í sambandi við kollega sína erlendis vegna málsins. Þetta staðfesti talsmaður ráðuneytisins nú fyrir skömmu.

Hluta­bréf í Cred­it Suis­se höfðu þegar hrapað fyrr í vikunni og stóðu í sögulegu lágmarki eftir lokun markaða á mánudag.

Þá stóð gengi bréfanna í 2,275 frönkum á hvern hlut. Nú er gengið 1,7 frankar á hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK