Bogi Nils: Icelandair var á bjargbrúninni 2020

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Hallur Már Hallsson

„Það voru margir sérfræðingar sem sögðu að það væri ekkert vit í að bjarga fyrirtækinu, það væri með alltof háan kostnað. Fjárfestar beinlínir hvöttu til þess að byrjað yrði með autt blað, ella myndu þeir ekki setja pening í félagið.“

Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í nýjum þætti Flugvarpsins, sem er hlaðvarp um flugmál. Þar er meðal annars fjallað um kjaradeilu Icelandair og Flugfreyjufélagsins sumarið 2020. Hún stóð yfir um það leyti sem Icelandair var að fara í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu sem lauk með hlutafjárútboði í september sama ár.

Bogi Nils segir í þættinum að félagið hafi verið í gríðarlega erfiðri stöðu og réri lífróður á meðan fjárhagslega endurskipulagningin stóð yfir. Hann segir þó að hann og aðrir stjórnendur félagsins hafi ekki tekið undir þau orð sem hér voru nefnd í upphafi. „Við stjórnendur félagsins á þessum tíma hugsuðum ekki svona og vildum bjarga fyrirtækinu,“ segir hann.

Icelandair greip til þess örþrifaráðs að segja upp öllum flugfreyjum félagsins eftir að drögum að samningum hafði verið hafnað í atkvæðagreiðslu. Þær uppsagnir voru þó dregnar til baka og samningar náðust á milli aðila.

„Við vorum í gríðarlega erfiðri stöðu og stundum voru bara engar leiðir færar. Að mínu mati varð niðurstaðan á endanum góð fyrir alla aðila. Okkur tókst að verja starfskjör og erum enn að bjóða lang bestu kjör fyrir flugfreyjur- og þjóna á Íslandi. Ef við berum okkur saman við samkeppnina á Íslandi þá er stór munur á kjörunum,“ segir Bogi Nils.

„Við erum mjög stolt að hafa komist í gegnum þetta tímabil, að hafa bjargað fyrirtækinu og halda áfram að bjóða uppá bestu kjör á Íslandi hvað þetta varðar og þótt víðar væri leitað. Það var hart tekist á en við vorum bara á bjargbrúninni og ég fæ ekki séð hvaða auðvelda leið var fær miðað við stöðuna sem var uppi.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Boga Nils í heild sinni í Flugvarpinu hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK