Steig inn til að koma í veg fyrir fjármálahrun

Höfuðstöðvar Seðlabanka Englands.
Höfuðstöðvar Seðlabanka Englands. AFP

Seðlabanki Englands greip til óvæntra aðgerða í dag til að koma böndum á breskt efnahagslíf og ró á markaði, en bankinn hóf að kaupa ríkisskuldabréf í kjölfar harðrar gagnrýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á fjárlagafrumvarp næsta árs. Viðskiptaritstjóri Sky News kveðst hafa heimildir fyrir því að breska lífeyrissjóðskerfið hefði fallið ef seðlabankinn hefði ekki brugðist við með þessum hætti. 

Fram kemur í umfjöllun Sky News að svipað ástand hefði skapast og varð árið 2007 þegar áhlaup var gert á breska bankann Northern Rock. Að þessu sinni gerði stór hópur sjóðfélaga áhlaup á lífeyrissjóði.

Ed Conway, viðskiptaritstjóri Sky News, segir að við þessar aðstæður skapist vítahringur. Fjöldi fólks reyni að taka út fé á sama tíma sem gæti á endanum leitt til fjármálahruns. 

Conway hefur heimildir fyrir því að margir lífeyrissjóðir hefðu hrunið síðdegis í dag ef seðlabankinn hefð ekki gripið inn í atburðarásina með neyðaraðgerð. Staðan hafi verið ansi tvísýn. 

Seðlabanki Englands mat stöðuna þannig að hlutar fjármálakerfisins gætu hrunið þegar í stað. Bankinn hyggst dæla fé inn á markaði þar sem ástandið hefur verið hvað verst. Bankinn telur sig hafa gert nóg til að afstýra efnahagsáfalli. 

Conway segir að hið óhugsandi hafi gerst, það er að bankinn hafi gripið til aðgerða til að leiðrétta mistök sem voru gerð í fjárlagafrumvarpinu. Hann kveðst ekki muna eftir öðru eins. 

Hann bendir á að Bretland sé eini markaðurinn þar sem viðlíka ástand hefur skapast eins og í dag. Seðlabanki Englands hafi í dag brugðist beint við stefnu breskra stjórnvalda í efnahagsmálum. 

Breskir fjármálamarkaðir treysta á greið viðskipti með ríkisskuldabréf sem er ætlað að dreifa áhættu yfir lengra tímabil. Þetta er það kerfi sem gerir fjármagni kleift að flæða frá lánveitendum til lánþega. 

Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir bresku lífeyrissjóðina sem treysta á viðskipti með ríkisskuldabréf til langs tíma, það er að segja bréf sem eru gefin út til 20 ára eða yfir lengra tímabil. Í kjölfar fjárlagatilkynningar breskra stjórnvalda féll eftirspurn snarlega eftir ríkisskuldabréfum sem leiddi til alvarlegs ástands á mörkuðum.

Englandsbanki steig því inn til að kaupa þessi ríkisskuldabréf svo allt færi ekki á versta veg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK