Erlendir keppinautar kaupi duft á lægra verði

Mjólkursamsalan.
Mjólkursamsalan. mbl.is/Kristinn

Fyrrverandi eigandi mjólkurbúsins Kú sakar Mjólkursamsöluna um að brjóta samkeppnislög og segir hann þolendur brotanna vera íslensk iðnfyrirtæki. 

„MS selur nú nýmjólkur- og undanrennuduft á mun hærra verði til íslenskra iðnfyrirtækja í sælgætis- og ísgerð. Þannig greiða fyrirtækin MS frá 37% til 50% skatt ofan á duftverðið, sé miðað við heimsmarkaðsverð. Er þetta sérstaklega ámælisvert þar sem MS hefur algjöra einokunarstöðu í sölu á nýmjólkur- og undanrennudufti og fyrirtækið nýtur gríðarlegrar tollverndar,“ segir í tilkynningu frá Ólafi. 

Ólafur M. Magnússon.
Ólafur M. Magnússon. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Íslensk fyrirtæki ekki samkeppnishæf

Ólafur segir mjög íþyngjandi að MS hafi samkeppnishamlandi skattlagningarvald gagnvart íslenskum iðnaði sem ekki nýtur innflutningsverndar með sama hætti og MS. Mörg íslensk iðnfyrirtæki starfi á alþjóðamarkaði og nú geti erlendir keppinautar keypt duft frá MS á mun lægra verði og selt vöru sína síðan á íslenska markaði.

„Það á að afleggja opinbera verðlagningu og setja MS undir samkeppnislög, eins og önnur fyrirtæki, og þeir þurfi að vinna á markaði eins og aðrir. Það á að draga úr innflutningsverndinni. Ef menn vilja vernda ákveðna innlenda framleiðslu þá á ekki að gera það á kostnað annarra innlendra framleiðslufyrirtækja. Heldur á ríkið að gera það með beinum hætti en ekki með því að skattleggja iðnfyrirtæki svo þau séu ósamkeppnishæf gagnvart keppinautum sínum á erlendum mörkuðum,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Löng brotasaga

Ólafur segir brotasögu MS langa og að fyrirtækið hafi brotið á öðrum fyrirtækjum með svipuðum hætti og nú.

„Það er algjörlega nauðsynlegt að MS horfist í augu við langvarnandi brotaferil sinn og einbeittan vilja sinn í að hafa undir alla keppinauti a þessum markaði. Þeir eiga ekki að geta haft skattlagningarvald gagnvart öllum keppinautum sínum og iðnfyrirtækjum i landinu áratugum saman, það er ekki boðlegt,“ segir Ólafur.

Fyrr á þessu ári var Mjólk­ur­sam­sal­an dæmd fyrir að hafa brotið gegn sam­keppn­is­lög­um og var fyr­ir­tæk­inu gert að greiða 480 millj­ón­ir króna í stjórn­valds­sekt.

Biður stjórnvöld um að opna augun

Ólafur segir að málið sé hjá Samtökum félaga atvinnurekanda og að komið sé erindi til Samkeppniseftirlitsins.

Hann hefur beint því til forsætisráðherra, forseta Alþingis og formanns stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis að fram fari opinber rannsókn á framgöngu MS gagnvart keppinautum þess.

Spurður hvort hann haldi að stjórnvöld geri eitthvað í málinu segir hann þau ekki geta litið framhjá því.

„Ég trúi því ekki að Ísland í dag sé þannig að ákveðið fyrirtæki og ákveðin störf séu rétthærri en önnur störf hér á landi. Þannig séu starfsmenn i íslenskum iðnaði, sem eru i samkeppni við MS, settir skör lægra og njóta minni verndar og réttinda gagnvart íslenskum stjórnvöldum heldur en störf sem eru búin til i íslenskum mjólkuriðnaði,“ segir Ólafur.

„Ég get staðið i þessari baráttu núna en hin fyrirtækin geta það ekki því þau óttast vald MS og hvernig þau muni beita sér gegn þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK