Storytel kaupir 70% hlut í Forlaginu

Sænska hljóðbókaveitan Storytel AB hefur keypt 70% hlut í bókaútgáfu Forlagsins, stærsta útgáfufyrirtækis landsins. 

Seljandinn, bókmenntafélagið Mál og menning, mun áfram fara með 30% hlut í félaginu sem mun starfa áfram sem sjálfstætt bókaforlag, aðskilið frá streymisveitu Storytel á Íslandi. 

Með kaupunum bætist Forlagið í hóp þriggja annarra norrænna útgáfufélaga í eigu Storytel AB. 

Salan var kynnt starfsmönnum Forlagsins á starfsmannafundi nú í morgun. 

Forlagið var stofnað árið 2007 af Jóhanni Páli Valdimarssyni, Agli Erni Jóhannssyni og Máli og menningu sem hefur farið með ráðandi hlut frá árinu 2017 þegar Jóhann Páll seldi sinn hlut. 

Forlagið og Storytel á Íslandi munu áfram starfa sjálfstætt eftir kaupin og stefna Forlagsins verður áfram sú að efla íslenska útgáfu og stuðla að því að raddir íslenskra rithöfunda berist sem víðast. 

Frá kaupunum.
Frá kaupunum. Ljósmynd/Aðsend

„Forlagið byggir á aldargamalli hefð útgefenda sem hafa gert það að ævistarfi sínu að koma íslenskum bókmenntum á framfæri. Við erum afskaplega ánægð og hlökkum til samstarfsins með Storytel sem er kraftmikið nýsköpunarfyrirtæki á sviði stafrænnar útgáfu. Samstarfið mun opna margar dyr fyrir höfundum Forlagsins og færa okkur skrefi nær inn í framtíðina og nær nútíma lesendum og hlustendum,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.

„Kaupin munu styrkja rekstrargrunn Forlagsins og tryggja forystu í stafrænni þróun til framtíðar. Þetta skref rammar einnig vel inn framtíðarsýn félagsins sem snýr að því að gefa út bestu verk íslenskra bókmennta og gera þau aðgengileg öllum lesendum, hvaðan og hvernig sem þeir vilja njóta þeirra,“ segir Egill Örn.

Umsvif Storytel margfölduðust á íslenskum markaði á árunum 2018 og 2019 og námu rekstrartekjur fyrirtækisins rúmlega hálfum milljarði í fyrra. 

Storytel Ísland er að fullu í eigi Storytel AB en markaðsvirði þess í sænsku kauphöllinni hleypur á hundruðum milljarða íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK