8,5 milljarða hagnaður Landsvirkjunar

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. mbl.is/Hari

Hagnaður Landsvirkjunar fyrir óinnleysta fjármagnsliði og skatta á fyrri hluta ársins nam 96,4 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 12 milljörðum íslenskra króna. Hagnaðurinn á sama tímabili í fyrra var 86,7 milljónir dala og 75 milljónir á fyrri hluta ársins 2017. Heildarhagnaður félagsins á fyrri hluta ársins nam 68,6 milljónum dala, eða um 8,5 milljörðum króna, en var 54,5 milljónir dala á sama tíma í fyrra.

Rekstrartekjur félagsins voru 259,7 milljónir dala, eða um 32,2 milljarðar og lækkuðu um 9,8 milljónir dala frá sama tíma í fyrra. Rekstrar- og viðhaldskostnaður nam 61,5 milljónum dala, en var á sama tíma í fyrra 71,8 milljónir dala.

Skuldir félagsins halda áfram að lækka, en hafa lækkað um 126,1 milljón dala, eða sem samsvarar 15,6 milljörðum króna, frá áramótum. Voru skuldir félagsins í lok júní 1.758,5 milljónir dala, eða 218 milljarðar króna. Handbært fé Landsvirkjunar var í lok tímabilsins 159,9 milljónir dala og hækkar um 7,1% milli ára.

Krefjandi staða stærstu viðskiptavina

Haft er eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í afkomutilkynningu að rekstur aflstöðva hafi gengið vel á árshlutanum. „Rekstur fyrirtækisins heldur áfram að þróast í rétta átt og efnahagur þess að styrkjast,“ er haft eftir honum. Þá er eiginfjárhlutfall félagsins nú komið yfir 50% í fyrsta skipti í sögu þess.

Helstu viðskiptavinir Landsvirkjunar eru stóriðjufyrirtækin hér á landi og eru álverin þar stærst. Segir Hörður í tilkynningunni að „vegna aðstæðna á alþjóðlegum hrávörumörkuðum er staða stærstu viðskiptavina krefjandi um þessar mundir“.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK