Coripharma gengur frá kaupum á þróunarsviði Teva

Bjarni K. Þorvarðarson forstjóri og Torfi Rafn Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar …
Bjarni K. Þorvarðarson forstjóri og Torfi Rafn Halldórsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Coripharma. Lyfjafyrirtækið er að ganga frá kaupum á þróunarsviði Teva í Hafnarfirði. mbl.is/​Hari

Lyfjafyrirtækið Coripharma er að ganga frá kaupum á þróunarsviði í Hafnarfirði sem var áður í eigu Actavis og síðar Teva. 50 starfsmenn frá þróunardeild Teva munu færast yfir til Coripharma þegar gengið verður frá kaupunum.

„Þetta verður stórt skref, ef af verður, það er ekki búið að skrifa undir samninga, en þetta er komið nógu langt til þess að núna í vikunni tilkynntum við þetta bæði til starfsmanna Teva og Coripharma,“ segir Bjarni K. Þorvarðarson, forstjóri og einn stærsti eigandi Coripharma, í samtali við mbl.is. 

Bjarni segir að það hafi alltaf verið hluti af upphaflegri áætlun Coripharma að taka yfir þróunarsvið Teva. „Við erum að halda áfram á þeirri vegferð sem við hófum í fyrra.“   

Úr 10 starfsmönnum í 90

Corip­harma og hóp­ur fjár­festa keyptu síðasta sumar lyfja­verk­smiðju Acta­vis í Hafnar­f­irði og hús­næði fyr­ir­tæk­is­ins við Reykja­vík­ur­veg 76 af Teva Pharmaceutical Industries, en Actavis var tekið yfir af Teva í byrjun ágúst 2016.

Í upphafi voru tíu starfsmenn hjá fyrirtækinu. Coripharma fékk framleiðsluleyfi frá Lyfjastofnun í desember og hefur starfsmönnum fjölgað í 40. Með kaupum á þróunarsviðinu munu rúmlega 50 starfsmenn Teva hefja störf hjá Coripharma.

Stefnan sett á eigin lyfjaþróun

Í upphafi var aðaláherslan lögð á að fram­leiða sam­heita­lyf und­ir merkj­um annarra lyfja­fyr­ir­tækja, svo­kölluð verk­takafram­leiðsla. „Annað skrefið er að fara í okkar eigin lyfjaþróun á samheitalyfjum og það er það skref sem við munum vera að taka núna ef að líkum lætur,“ segir Bjarni. Þróunarferli lyfjanna mun taka 3-4 ár að sögn Bjarna og Coripharma mun halda áfram í verktakaframleiðslu næstu árin.   

Samningaviðræður hafa staðið yfir í nokkra mánuði að sögn Bjarna og segir hann ferlið vera komið það langt núna að báðir aðilar ætli sér að klára ferlið innan nokkurra vikna. „Við ætluðum að búa hér til lyfjafyrirtæki sem nýtir sér þá reynslu og þann slagkraft sem var á lóðinni þegar Actavis var hvað öflugast og þetta er akkúrat skrefið í þá átt, að endurvekja þennan kraft sem hér bjó.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK