Dönsk matvöruverslun við Hallveigarstíg

Sigurður Pálmi fékk lykilinn að Hallveigarstíg 1 í byrjun mánaðar.
Sigurður Pálmi fékk lykilinn að Hallveigarstíg 1 í byrjun mánaðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það sem kemur í staðinn verður betra en það sem var,“ segir Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson sem stendur að opnun matvöruverslunarinnar Super1 að Hallveigarstíg 1, þar sem Bónus var áður til húsa, á allra næstu dögum.

„Ég bý hér í hverfinu og þekki viðskiptavinina og skil mjög vel að það er vont að missa svona matvörubúð úr hverfinu, en hjá okkur verður betra úrval, meiri áhersla á ferskvöru og lengri opnunartímar,“ segir Sigurður Pálmi.

Undirbúningur opnunarinnar hefur staðið yfir síðan síðasta sumar og hefur Sigurður unnið að henni í samstarfi við danskt fyrirtæki, en Super1 er dönsk matvöruverslunarkeðja.

„Ég fékk lykilinn 1. febrúar og við erum búin að vera að dag og nótt síðan þá. Hér er búið að framkvæma algert kraftaverk og það er mikið af starfsfólki sem vildi halda áfram í versluninni eftir að Bónus lokaði og það er mikil reynsla og þekking sem því fylgir.

Nýjar vörur frá skandinavískum risa

Auk þess hafa starfsmenn dönsku heildsölunnar aðstoðað við uppstillingu á vörum, en að sögn Sigurðar Pálma mun verslunin bjóða upp á vörur frá skandinavískum framleiðslurisa sem margir Íslendingar ættu að kannast við. „Við munum bjóða upp á nýjar vörur á samkeppnishæfu verði. Framleiðandinn leggur áherslu á umhverfisvottanir, það er mikið lífrænt og Svansmerkið á flestum vörum, og Skráargatið á matvöru,“ úrskýrir Sigurður Pálmi.

„Þetta verður svo allt í bland við merkjavöru sem fólk þekkir og hefur keypt í ár og áratugi.“

Að sögn Sigurðar Pálma eiga örfá undirbúningsatriði eftir að smella áður en hægt er að segja til um opnunardag, en hann lofar að það verði á allra næstu dögum.

„Ég er algerlega sannfærður um að íbúar í hverfinu muni taka þessari verslun fagnandi. Ef þeir hafa einhverjar athugasemdir þá verð ég verslunarstjóri á gólfinu og fólk getur komið og talað við mig, komið með ábendingar og ég er opinn fyrir öllu. Mínir yfirmenn eru viðskiptavinirnir og ef yfirmaðurinn er ekki sáttur þá er þetta fallið um sjálft sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK