Hagnaður Arion dróst verulega saman

Hagnaður Arion banka á síðasta ári nam tæpum 7,8 milljörðum …
Hagnaður Arion banka á síðasta ári nam tæpum 7,8 milljörðum króna, sem er nærri helmingi minna en árið 2017. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hagnaður Arion banka á síðasta ári nam tæpum 7,8 milljörðum króna, sem er nærri því helmingi minni hagnaður en á síðasta ári, þegar hagnaðurinn var 14,4 milljarðar króna, samkvæmt ársreikningi bankans sem var birtur eftir lokun markaða í dag.

Bankinn hagnaðist um 1,6 milljarða á seinasta fjórðungi ársins og leggur stjórn bankans til þess að hluthöfum verði greiddir 10 milljarðar króna í arð, samkvæmt fréttatilkynningu bankans til kauphallar. Arðsemi bankans dróst saman, var 3,7% á síðasta ári samanborið við 6,6% á árinu 2017.

„Heildareignir námu 1.164,3 milljörðum króna í árslok 2018 samanborið við 1.147,8 milljarða króna í árslok 2017 og eigið fé hluthafa bankans nam 200,9 milljörðum króna, samanborið við 225,7 milljarða króna í árslok 2017. Arion banki greiddi 16,2 milljarða króna í arð og keypti eigin bréf fyrir 17,1 milljarð króna,“ segir í tilkynningunni.

Hræringar í flugrekstri „settu mark sitt á starfsemina“

Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri segir í tilkynningu að afkoma á fjórða ársfjórðungi hafi verið undir væntingum, rétt eins og árið í heild.

„Við sjáum hins vegar jákvæða þróun í grunnstarfsemi bankans og það er ánægjulegt að sjá að vaxtamunur hækkar á fjórða ársfjórðungi í samræmi við markmið okkar. Erfiðar aðstæður á hluta- og skuldabréfamörkuðum og ekki síst hræringar í flugrekstri settu mark sitt á starfsemina, bæði á fjórðungnum og á árinu í heild. Eitt helsta verkefni þessa árs verður að auka arðsemi í rekstri bankans og hafa ýmis verkefni verðið sett í gang með það að markmiði. Það er engu síður ljóst að það er erfitt verkefni að ná viðunandi arðsemi án umtalsverðra hækkana á útlánavöxtum þegar ríkisvaldið viðheldur ofursköttum á bankakerfið og eftirlitsaðilar bæta við eiginfjárkröfum og öðrum álögum,“ segir Höskuldur meðal annars í tilkynningunni.

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka. mbl.is/Eggert

Laun bankastjórans hækkuð

Launin hjá forstjórum bankanna hafa verið mikið í umræðunni í samfélaginu síðustu daga og í ársreikningi Arion banka kemur fram að laun Höskuldar árið 2018 hafi verið 67,5 milljónir, eða röskar 5,6 milljónir á mánuði.

Regluleg laun bankastjórans hækka því um 5,5 milljónir á milli ára. Ofan á það bætast 7,2 milljónir króna, sem bankastjórinn fékk í árangurstengdar greiðslur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK