KPMG og Deloitte reka meðeigendur í Bretlandi

27 meðeigendum KPMG og Deloitte í Bretlandi hefur verið sagt …
27 meðeigendum KPMG og Deloitte í Bretlandi hefur verið sagt upp vegna óviðeigandi framkomu. Samsett mynd

Endurskoðunarfyrirtækin KPMG og Deloitte í Bretlandi hafa losað sig við samtals 27 meðeigendur eftir rannsóknir sem leiddu í ljós óviðeigandi hegðun þeirra, meðal annars kynferðislega áreitni og einelti á síðustu fjórum árum.

Fyrirtækin tvö, sem eru hluti af „fjórum stóru“ endurskoðunarfyrirtækjunum sem teljast þau fjögur stærstu á alþjóðavísu, greindu frá þessu í vikunni.

Hjá KPMG var um að ræða sjö af 635 meðeigendum félagsins í Bretlandi. Voru þeir annaðhvort reknir eða leyft að segja af sér eftir innri rannsókn á málefnum sem tengdust þeim. Hjá Deloitte var 20 meðeigendum sagt upp, en greint var frá uppsögnunum á mánudaginn. Hjá félaginu eru um eitt þúsund meðeigendur.

Bæði félögin sögðu að hegðun sem starfsfólkið hefði orðið uppvíst að væri með öllu ólíðandi hjá fyrirtækjunum og vísuðu í starfsmannastefnur þeirra. Sagði David Sproul, forstjóri Deloitte í Bretlandi, við Financial Times að engum sem sýndi af sér óviðeigandi hegðun væri hlíft. Tók hann fram að yfirmenn gætu ekki hitt undirmenn sína á bar eftir vinnu og ætlast til þess að eiga einnar nætur gaman.

Price Waterhouse Cooper og Ernst & Young, hin endurskoðunarfyrirtækin sem flokkast sem „fjögur stóru“ hafa neitað að upplýsa um svipaðar tölur hjá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK