Erfið vika að baki á Wall Street

AFP

Vikulækkun helstu hlutabréfavísitalna Bandaríkjanna í síðustu viku var sú mesta síðan í mars. Eru það einkum hlutabréf net- og tæknifyrirtækja sem hafa verið á niðurleið og er þróunin m.a. rakin til áhyggja fjárfesta af spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Kína og óvissu um mögulega hækkun stýrivaxta síðar í þessum mánuði. 

Huawei-málið skemmir fyrir

Greina mátti merki um bjartsýni í byrjun vikunnar, eftir að bráðabirgðasamkomulag náðist á milli leiðtoga Bandaríkjanna og Kína um að gera vopnahlé í tollastríði landanna, en taugaveiklunin virðist hafa náð yfirhöndinni þegar fréttist að stjórnvöld í Kanada hefðu, að beiðni Bandaríkjastjórnar, handtekið fjármálastjóra kínverska fjarskiptatæknirisans Huawei þar sem hún var í heimsókn í Vancouver. Stafar handtakan af grunsemdum um að Huawei hafi brotið gegn viðskiptabanni sem Bandaríkin og Evrópuþjóðir lögðu á Íran.

Óttast fjárfestar að handtakan torveldi tolla- og viðskiptaviðræður Bandaríkjanna og Kína en löndin sammæltust um 90 daga samningstímabil þar sem leysa á úr ýmsum deilum. Takist samningar ekki fyrir þann tíma má vænta þess að ríkisstjórn Donalds Trumps hækki tolla á kínverskan innflutning enn meira en hún hefur nú þegar gert.

Þá hafa stjórnendur bandarískra fyrirtækja áhyggjur af að kínversk stjórnvöld freistist til að gjalda líku líkt með því að handtaka fulltrúa bandarísks fyrirtækis. Segir Reuters að mörg bandarísk fyrirtæki vilji hafa allan vara á; þau muni forðast að senda starfsmenn til Kína nema brýna nauðsyn beri til, og láta fundi með kínverskum samstarfsaðilum fara fram í öðrum löndum sé þess kostur.

Dow Jones-vísitalan lækkaði um 2,24% á föstudag, og 4,5% yfir vikuna og S&P; 500 lækkaði um 2,33% á föstudag en 4,6% yfir vikuna. Mest lækkaði Nasdaq-vísitalan: 3,05% í viðskiptum föstudagsins og 4,9% yfir vikuna.

Markaðsgreinendur segja þróunina undanfarið gefa tilefni til að vænta þess að hlutabréfaverð haldi áfram að lækka á næstunni en að markaðurinn rétti svo úr kútnum áður en langt um líður.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK