SEB-bankinn flæktur í stórt skattsvikamál

SEB er grunaður um að hafa svikið milljarð sænskra króna …
SEB er grunaður um að hafa svikið milljarð sænskra króna út úr þýska skattinum. AFP

Sænski bankinn SEB sætir rannsókn þýskra skattayfirvalda vegna gruns um að bankinn hafi árið 2010 svikið um milljarð sænskra króna, jafnvirði um þrettán milljarða íslenskra króna, út úr þýska skattinum. Þetta kemur fram í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins, sem birt var í morgun og unnin er í samstarfi við Correctiv, teymi þýskra rannsóknarblaðamanna. Fléttunni hefur verið lýst sem „stærsta skattsvikamáli Evrópu í seinni tíma“. 

Viðskiptin sem um ræðir áttu sér stað í apríl 2010 þegar forstjóri þýska dótturfélags SEB-bankans svaraði tölvupósti tveggja verðbréfasala frá Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Í tölvupóstinum má finna drög að áætlun um hlutabréfakaup í tuttugu stærstu fyrirtækjum þýsku kauphallarinnar, þeirra á meðal Volkswagen og orkufyrirtækisins Eon. Ólíkt hefðbundnum hlutabréfakaupum var markmiðið þó ekki að treysta á að hlutabréfin myndu hækka í verði og selja þá. Þess í stað stóð til að svíkja fé úr þýska skattinum þegar kæmi að arðgreiðslum fyrirtækjanna.

Á næstu dögum keypti bankinn hlutabréf í fyrirtækjunum tuttugu fyrir um 1.000 milljarða króna. Í Þýskalandi, rétt eins og í mörgum öðrum ríkjum, heldur ríkið sjálfkrafa eftir fjármagnstekjuskatti af arðgreiðslum fyrirtækja en fyrirtæki með skattalegt heimilisfesti erlendis geta fengið þær greiðslur endurgreiddar.

Sviðsettu hlutabréfasölu

Samkvæmt gögnum sem sænska ríkisútvarpið hefur undir höndum misnotaði bankinn sér þetta fyrirkomulag með því að sviðsetja sölu á bréfunum til Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í kringum þann tíma er til stóð að greiða út arð í fyrirtækjunum. Þannig gátu arabískir „eigendur“ bréfanna fengið skattgreiðslurnar endurgreiddar, þó bréfin væru í raun í eigu fyrirtækisins í Þýskalandi.

Í skriflegu svari við fyrirspurn SVT hafnar Johan Andersson, forstjóri þýska dótturfélags bankans, öllum ásökunum saksóknara. Bankinn hafi alltaf starfað í samræmi við lög og reglur og ekki stundað svokallaða „cum-ex gjörninga“ eins og fyrrnefndir gjörningar eru jafnan kallaðir.

Christoph Spengel, prófessor við Háskólann í Mannheim og einn helsti skattsérfræðingur Þýskalands, segir þó hafið yfir allan vafa að sænski bankinn hafi meðvitað farið á svig við lögin. Þannig hafi bankinn til að mynda lánað arabíska fyrirtækinu hálfan milljarð evra. „Slíkt er ekki gert án samþykkis stjórnar,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK