Áhyggjur af Tyrklandi valda óvissu

Tyrknesk líra hefur fallið um 33% frá áramótum og er …
Tyrknesk líra hefur fallið um 33% frá áramótum og er ástandið í landinu að valda usla út fyrir landsteinana. AFP

Markaðir í Asíu lokuðu með misjöfnu gengi í dag eftir nokkra lækkun vegna þeirrar efnahagslegu óvissu sem orðið hefur í Tyrklandi. Nikkei-kauphöllin í Japan hækkaði mest eða 2,28% og japanska yenið lækkaði smávægilega á sama tíma eftir að hafa hækkað nokkuð í kjölfar fjármagnsflutninga, sem sagðir eru í umfjöllun CNBC tengjast fjármagnsflótta frá Tyrklandi.

Þá varð einnig hækkun á hlutabréfamörkuðum í Suður-Kóreu, 0,47%, og Ástralíu, 0,76%. Lækkun varð hins vegar í Hang Seng-kauphöllinni í Hong Kong, -0,66%, og í Shanghai-kauphöllinni í Kína, -0,17%.

Evrópskir markaðir virðast hafa jafnað sig eftir óstöðugleika tengdan Tyrklandi og voru hækkanir á FTSE, DAX og CAC við opnun markaða í dag.

Þá hefur verið tilkynnt að hagvöxtur Þýskalands jókst á öðrum ársfjórðungi. Samkvæmt CNBC hafa hagfræðingar þó áhyggjur af því að miklar viðskiptadeilur ríkja og samdráttur á fjármálamarkaði í Tyrklandi geti haft neikvæð áhrif á hagvöxt í Evrópu.

Eftir 33% gengisfall tyrknesku lírunnar frá byrjun ársins virðist hún hafa verið nokkuð stöðug í dag. Hins vegar hafa fjárfestar enn áhyggjur af hárri verðbólgu, miklum viðskiptahalla og deilum við Bandaríkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK