Flugfélögin hafi áhrif á ferðamannastraum

Erlendir ferðamenn við Gullfoss.
Erlendir ferðamenn við Gullfoss. mbl.is/Ómar Óskarsson

Breytingar á leiðakerfum flugfélaganna hafa ekki minni áhrif á ferðamannastraum en sveiflur á gengi krónunnar og eru áhrif sem af þeim stafa jafnvel meiri en hækkandi verðlag hér á landi. Íslensku flugfélögin bættu við sig fimm áfangastöðum í Bandaríkjunum hvort um sig í sumar til þess að anna eftirspurn en meirihluti farþega flugfélaganna eru skiptifarþegar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt á vefnum Túristi.is. 

Í júlí voru er­lend­ir brott­far­arfarþegar í Leifs­stöð 278.613 og hafa aldrei verið fleiri í júlí­mánuði. Banda­ríkja­menn eru fjöl­menn­ast­ir þjóðerna í júlí með tæp­lega 103 þúsund farþega eða 36,9% af heild.

Meiri hluti farþega Icelandair og WOW air eru hins vegar skiptifarþegar og því ræður aðdráttarafl Íslands ekki eitt og sér því hvert þotur vélanna fljúga heldur sé fyrst og fremst verið að anna spurn eftir Atlantshafsflugum, eftir því sem segir í fréttinni. Því sé sú aukning ekki að skila sér inn í íslenska ferðaþjónustu sem skyldi. 

Fylla ekki í skarð Air Berlin um Íslandsferðir

Flugáætlanir íslensku flugfélaganna hafa breyst milli ára. Hefur áætlunarferðum milli Íslands og Þýskalands sem dæmi fækkað um fjórðung í júlí. Skýrist það að miklu leyti af því að Air Berlin, næststærsta flugfélag Þýskalands, varð gjaldþrota í vetur en félagið hafði verið umsvifamikið í Íslandsflugi. Hin þýsku flugfélögin fjölguðu ekki ferðum hingað til lands á móti. 

Flugfélagið Eurowings dró þá saman seglin og bauð aðeins upp á Íslandsflug frá tveimur þýskum borgum en ekki fimm líkt og sumrin á undan. Þá hafi munað mikið um niðurskurð Icelandair á næturflugi til Þýskalands og fleiri Evrópulanda.

Því skýrist minnkandi aðdráttarafl Íslands ekki einungis af hækkandi verðlagi hér á landi heldur hafi forsvarsmenn Lufthansa og Eurowings viðurkennt að það hafi reynst erfitt að taka við öllum mörkuðum Air Berlin og önnur lönd hafi þá verið sett í forgang heldur en Ísland. Icelandair er nú tekið að fljúga til Berlínar en aðallega vegna þess skarðs sem þurfti að fylla fyrir áætlunarferðir til Bandaríkjanna frá höfuðborg Þýskalands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK