Húrra setur sterkan svip á miðbæ Reykjavíkur

Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson eru eigendur Húrra …
Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson eru eigendur Húrra Reykjavíkur. ValgardurGislason,Valgarður Gíslason

Sindri Snær Jensson og Jón Davíð Davíðsson stofnuðu fataverslunina Húrra Reykjavík á Hverfisgötu fyrir tæpum fjórum árum. Á þeim tíma hafa þeir opnað kvenfatabúð og pítsustað og margt fleira er í pípunum. Þeir segjast hafa lært margt á skömmum tíma en þeir fjármögnuðu upphafskostnaðinn að miklu leyti með því að selja vörur til vina og vandamanna fyrir um þrjár milljónir króna fyrirfram, áður en þeir höfðu opnað verslunina.

Vinsældir Húrra Reykjavík hafa verið töluverðar, þá sérstaklega hjá yngri kynslóðinni, síðan fyrsta verslunin var opnuð haustið 2014. Verslanirnar eru nú orðnar tvær, ein herrafatabúð og ein kvenfatabúð. Eigendur verslananna eru tveir vinir, nýskriðnir yfir þrítugt og hafa mikla ástríðu fyrir tísku og smásölu. Nýverið opnuðu þeir, í samvinnu við tvo aðra vini sína, pítsastaðinn Flatey úti á Granda. Blaðamaður settist niður yfir kaffibolla með Sindra Snæ Jenssyni og Jóni Davíð Davíðssyni og spjallaði við þá um vörumerkið, sögu verslunarinnar og fékk innsýn í vinskap þeirra tveggja sem teygir sig langt aftur.

Gengu með hugmyndina lengi í maganum

Aðspurðir hvernig hugmyndin kviknaði að því að fara saman í rekstur, segja strákarnir að þetta hafi verið hugmynd sem þeir höfðu gengið með í maganum frá unglingsaldri.

„Við Sindri kynnumst í gegnum fótboltann í Þrótti,“ segir Jón Davíð. „Ég er fæddur 1988 og er tveimur árum yngri en Sindri. Í fjórða flokki spila ég upp fyrir mig og með honum í þriðja flokki, en ég hafði þekkt Sindra síðan ég var lítill. Í fótboltanum kynntumst við hins vegar betur og urðum góðir vinir. Við tengdumst í gegnum sameiginleg áhugamál sem voru tíska, íþróttir og að eltast við stelpur.“

„Þegar Sindri var 18 ára hóf hann störf í Retro í Smáralind og ég einnig, meðfram skóla. Sindri vann sig upp innan NTC, eiganda Retro, og varð að lokum verslunarstjóri yfir stærstu verslun fyrirtækisins, Sautján, og stóð sig þar frábærlega,“ heldur Jón áfram.

„Þegar ég kláraði viðskiptafræðina í HR varð ég verslunarstjóri Húsgagnahallarinnar og fékk að taka þátt í því að byggja hana upp á meðan Sindri var verslunarstjóri í rótgróinni búð í Kaupmannahöfn.“

Sindri tekur þá við og segir að það hafi verið um jólin 2013 sem hugmyndin hafi kviknað. „Ég var heima í jólafríinu mínu og við Jón eyddum öllum tímanum í djamm og vitleysu. Við vorum að tala saman þegar hann keyrði mig upp á flugvöll og við litum á hvor annan og sögðum: „Verðum við ekki að fara að gera eitthvað af viti?“ Upp úr því kom hugmyndin að opna fatabúð. Ég var búinn að vinna í tískuverslunum allan minn starfsferil og þetta var ást við fyrstu sýn.“

„Ég er mjög stoltur af því hvernig þetta fór af stað hjá okkur,“ skýtur Jón Davíð inn í. „Það voru margir sem efuðust þegar við sögðumst ætla að opna fatabúð á Hverfisgötu árið 2014. Öll gatan var sundurtætt og uppgrafin og lítið að gerast. Við áttum eiginlega engan pening, ég átti eitthvert smáfjármagn og Sindri átti ekki krónu. Þannig að við gerðum skothelda viðskiptaáætlun og fengum bankalán frá tveimur af þremur bönkunum sem við leituðum til. Við þurftum hins vegar að brúa bilið og koma með ákveðið mikið eigið fé. Eftir nokkrar vangaveltur ákváðum við að fyrirfram selja vörur, áður en við opnum búðina. Við seldum fyrir þrjár milljónir til vina og vandamanna sem höfðu mikla trú á okkur, áður en við vorum búnir að opna. Þannig að með útsjónarsemi er allt hægt. Fyrir mörgum hefði þetta verið óyfirstíganlegur hjalli.“

Sjá viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum sem kom út 9. ágúst.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK