Samsung fjárfestir á nýjum sviðum

Samsung mun fjárfesta fyrir 16.900 milljarða króna á næstu þremur …
Samsung mun fjárfesta fyrir 16.900 milljarða króna á næstu þremur árum, aðallega í heimalandinu Suður-Kóreu. AFP

Suður-kóreski raftækjaframleiðandinn Samsung tilkynnti í dag að fyrirtækið hygðist fjárfesta fyrir um 2.300 milljarða króna á næstu þremur árum í tækni á borð við gervigreind, sjálfkeyrandi bíla og líflyf (e. biopharmaceutical), en það eru lyf af lífrænum uppruna sem geta til dæmis innihaldið lifandi frumur og vefi.

Fjárfestingarnar eru hluti af 16.900 milljarða fjárfestingaráætlun Samsung Group til næstu þriggja ára á öllum sviðum fyrirtækisins. Um 70 prósent fjárhæðarinnar verður varið í Suður-Kóreu.

Þess er vænst að fjárfestingar Samsung skapi 40.000 ný störf í Suður-Kóreu á næstu þremur árum og gleðja því að öllum líkindum ríkisstjórn landsins, sem hefur einsett sér að taka á miklu atvinnuleysi ungs fólks.

Lee Jae-Yong í dómsal.
Lee Jae-Yong í dómsal. AFP

Tilkynningin kemur tveimur dögum eftir að fjármálaráðherra Suður-Kóreu, Kim Dong-yeon, fundaði með varaforstjóra fyrirtækisins, Lee Jae-yong, eða Jay Y. Lee eins og hann kallar sig á Vesturlöndum. Lee er sonur forstjórans, gjarnan nefndur „krónprinsinn af Samsung“ í suður-kóreskum miðlum og sagður valdamestur manna innan þess. Hann var dæmdur í fjögurra ára fangelsi í fyrra vegna spillingar en áfrýjaði dómnum og eftir að hafa setið inni í ár var hann látinn laus á skilorði til fjögurra ára.

Bregðast við stöðnuðum snjallsímamarkaði

Fjárfestingarnar verða drifnar áfram af Samsung Electronics, stærsta framleiðanda minnisflaga í heimi, sem er undirfyrirtæki Samsung Group en fyrirtækið hefur átt í erfiðleikum undanfarin ár meðal annars vegna minnkandi snjallsímasölu. Auk þess var aðstoðarforstjórinn Lee Jay-yong dæmdur í fangelsi í fyrra vegna spillingar.

Þótt spurn eftir minnisflögum sé mikil virðist sem snjallsímamarkaður hafi staðnað og leitar fyrirtækið því nýrra vaxtartækifæra á öðrum sviðum.

„Samsung væntir þess að uppfinningar á sviði gervigreindar muni knýja umbreytingu iðnaðarins á sama tíma og næsta kynslóð fjarskipta, 5G, skapar tækifæri fyrir sjálfkeyrandi bíla, internet hlutanna og vélfærafræði,“ segir í yfirlýsingu frá Samsung.

Samsung mun einnig fjárfesta í verksmiðjum sínum með það fyrir augum að auka framleiðslu á hálfleiðurum og skjám auk tækni sem á að knýja sjálfkeyrandi bíla.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK