Sorrell hættur störfum hjá WPP

Martin Sorrell.
Martin Sorrell. AFP

Martin Sorrell hefur látið af störfum sem forstjóri WPP, stærstu auglýsingastofu heims. Sorrell er í hópi áhrifamestu einstaklinga auglýsingaheimsins og snjall viðskiptamaður en á rösklega þremur áratugum umbreytti hann WPP úr tveggja manna fyrirtæki í alþjóðlegt stórveldi og eitt stærsta fyrirtæki Bretlands, með um 200.000 starfsmenn í 112 löndum.

Að sögn FT tengist brotthvarf Sorrell ásökunum í hans garð um ósæmilega hegðun og óeðlilega notkun peninga auglýsingastofunnar. WPP hefur ekki tjáð sig nánar um ásakanirnar að því undanskildu að hafa á sunnudag upplýst að rannsókn stjórnar fyrirtækisins hafi leitt í ljós að ásakanirnar varði „óverulegar fjárhæðir“.

Sorrell hefur alfarið neitað ásökununum en í tilkynningu sem hann sendi starfsmönnum WPP sagði hann það fyrirtækinu fyrir bestu að hann stígi til hliðar, þar eð ásakanirnar hafi sett of mikinn óþarfa þrýsting á reksturinn.

Tveir framkvæmdastjórar WPP, Mark Read og Andrew Scott, munu fylla í skarðið til bráðabirgða og deila með sér forstjóraskyldunum. Kaupaukaréttindi Sorrell, sem er 73 ára gamall og hlaut riddaratign árið 2000, munu haldast þau sömu og ef hann hefði hætt störfum á eðlilegan hátt.

Brotthvarf Sorrells bætist við önnur vandamál sem hrjáð hafa WPP. Hlutabréfaverð WPP náði hámarki í mars 2017 en hefur lækkað um 38% síðan þá, en á sama tíma hefur FTSA vísitalan veikst um 1,6%. Það sem af er þessu ári nemur lækkun WPP 11%.

Bendir FT á að voldug sérfræðiráðgjafarfyrirtæki á borð við Deloitte og Accenture hafi verið að fikra sig inn á svið sem áður heyrðu undir auglýsingastofur og að Google og Facebook opni auglýsendum beina leið að fjölda fólks. Mest muni þó um að aðgerðasinnaðir fjárfestar hafa valdið því að margir af stærstu neytendavöruframleiðendum heims hafa dregið mikið úr útgjöldum til markaðsmála og þar með saxað verulega á tekjur WPP.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK