WOW fer í samkeppni um viðskiptafarþega

Skúli Mogensen, forstjóri WOW.
Skúli Mogensen, forstjóri WOW. mbl.is/Rax

WOW air kynnir nú til leiks betrumbætta þjónustu í viðskiptafarrými undir heitinu WOW premium og ætlar þannig í harða samkeppni um markhóp sem fullþjónustufélög (legacy airlines) hafa haft miklar tekjur af. Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, segir að félagið geti boðið viðskiptafarrýmið á helmingi lægra fargjaldi en þekkst hefur hingað til. 

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga hjá fyrirtækjum sem vilja geta boðið starfsfólki sínu sem ferðast aðgang að stærri og breiðari sætum með meiri þægindum en samt á mun hagstæðari kjörum en hingað til hefur tíðkast fyrir viðskiptafargjöld,“ segir Skúli í samtali við mbl.is. 

Tæknin gerir aðgreiningu auðveldari

WOW premium tekur við sem valkostur af WOW biz. Með WOW premium fá farþegar stærra og breiðara sæti með fótaskemli og meira fótaplássi. Innifalin eru handfarangur, frátekið farangursrými fyrir ofan sæti, tvær innritaðar töskur og ótakmarkaður matur og drykkir um borð. Þá eru forfallavernd, hraðleið gegnum öryggisleit á Keflavíkurflugvelli og forgangur um borð á öllum flugvöllum einnig innifalin. 

„Tæknin gerir okkur kleift að aðgreina betur mismunandi markhópa og þjónusta þá á betri máta en það skiptir líka máli að eltast ekki við allt það óþarfa sem fylgir sumum flokkum,“ segir Skúli og nefnir dæmi. 

„Það sem skiptir mig máli þegar ég ferðast er að fá fljótan aðgang í gegnum flugvöll og sömuleiðis fljóta afgreiðslu af flugvelli en ég vil síður mæta mörgum klukkutímum fyrir brottför til þess að sitja í setustofu á flugvellinum. Frekar nota ég tímann með fjölskyldunni eða til þess að vinna og þetta er það sem við höfum verið að heyra frá farþegum okkar auk þess að þeir vilji geta valið um stærri og betri sæti.“

Verðbilið á milli farrýma breikkað

Skúli segir að verðþróunin í fluginu hafi verið þannig að fargjöld á viðskiptafarrými hafi hækkað á meðan fargjöld á almenningsfarrými hafa lækkað. Hann sér tækifæri í því að endurskilgreina viðskiptafarrýmið eins og WOW air endurskilgreindi flugferðir yfir hafið. 

Við teljum okkur geta boðið viðskiptafarrýmið á helmingi lægra fargjaldi en þekkist í dag og erum sannfærð um að það muni vekja lukku,“ segir Skúli.

Ljósmynd/WOW

Lækka fargjöld með öllum ráðum

Aðspurður segist Skúli vona að þessi nýjung muni hrista upp í markaðinum og snúa verðþróuninni við. 

„Ég held að innkoma okkar á marga markaði hafi orðið til þess að fargjöld hafi lækkað og við höfum það að leiðarljósi að lækka fargjöld með öllum ráðum. Mörg flugfélög hafa mest upp úr viðskiptafarrými flugvélarinnar og það verður fróðlegt að sjá hvernig þau bregðast við.

Velta WOW air nam 50 milljörðum króna á síðasta ári og er markmiðið að hún verði um 70 milljarðar í ár. WOW air flutti 242 þúsund farþega til og frá land­inu í mars eða um 20% fleiri farþega en í mars árið 2017 og hef­ur fé­lagið aldrei flutt fleiri farþega í mars­mánuði. Þá var sæta­nýt­ing WOW air 93% en var 91% í sama mánuði á síðasta ári þrátt fyr­ir 17% aukn­ingu á fram­boðnum sæt­um á milli ára. Flugfélagið á von á sjö nýjum Airbus-flugvélum og að sögn Skúla mun brátt koma í ljós hvernig sótt verður inn á Asíumarkað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK