Stóraukin endurkaup í Kauphöllinni

Kauphöll Íslands.
Kauphöll Íslands. mbl.is/G.Rúnar

Fyrirtæki í Kauphöllinni vörðu 19,1 milljarði króna til kaupa á eigin hlutabréfum á árinu 2017 sem er álíka há upphæð og tvö árin á undan samanlögð. 

Endurkaup fyrirtækja, hvort sem þau voru hluti af endurkaupaáætlun eður ei, námu 19.080 milljónum króna árið 2017 en þau námu 10,705 milljónum árið 2016 og 9.306 milljónum árið 2015.

Mestu munaði um endurkaup Marel sem keypti eigin bréf fyrir 7.595 milljónir króna á árinu. Næst á eftir kom Össur sem varði 3.971 milljónum til endurkaupa en hlutabréf félagsins voru tekin úr viðskiptum í kauphöllinni 30 nóvember. Þriðja umfangsmesta fyrirtækið í þessum efnum var Icelandair sem keypti eigin bréf fyrir 1.661 milljón króna.

Skráð fyrirtæki hafa um tvær leiðir að velja til að skila hagnaði til eigenda; annars vegar með arðgreiðslum og hins vegar endurkaupum á hlutabréfum. 

„Endurkaup snúast m.a. um að koma fjármagni til eigenda á auðveldan hátt á markaðsverði. Oft er það gert þegar fjármagnið er betur ávaxtað í öðrum fjárfestingakostum en inni á bankabókum viðkomandi hlutafélags,“ segir Ragnar Benediktsson, hlutabréfagreinandi hjá greiningarfyrirtækinu IFS. 

„Við endurkaup eykst hagnaður á hvern útistandandi hlut sem getur gert félagið fýsilegra í augum fjárfesta. Endurkaup hafa áhrif á fjármagnsskipan félagsins, lækka ávöxtunarkröfu þess og það fækkar í eigendahópnum.“ 

Lífeyrissjóðirnir ekki reiðufjárþurfi

Ragnar segir nokkrar ástæður fyrir því að velja endurkaup í stað arðgreiðslna. Til dæmis þegar stjórnendur telja félagið vera undirverðlagt, kaupa bréfin ódýrt og selja þau aftur á markaði þegar hlutabréfaverð hefur hækkað. Einnig sé þekkt að skammtímafjárfestar kaupi í bréfum hlutafélaga sem eru að ráðast í endurkaup. Þannig hækkar verðmiðinn á hlutafélaginu ásamt verðmargfaldaranum sem gerir bréfin álitlegri í augum fjárfesta. 

Þá segir Ragnar að ekki sé alltaf ákjósanlegt fyrir alla eigendur að fá reiðufé sem felst í arðgreiðslum og geta fjárfestar í raun valið um hvort þeir selji bréfin eða ekki.  

„Lífeyrissjóðirnir eru stærstu eigendurnir á markaði og þeir hafa tryggt greiðsluflæði gegnum iðgjöld og útlán til sjóðsfélaga. Það gæti skýrt að hluta til hvers vegna við sjáum frekar endurkaup en arðgreiðslur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK