Segja enga kjaradeilu til staðar

Flugþjónar og flugfreyjur Primera Air eiga ekki í kjaradeilu við félagið og ríkissáttasemjari hefur enga lögsögu í því máli. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Primera Air sem segir ASÍ og Flugfreyjufélagið misnota verkfallsréttinn. 

Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að full­trú­ar Pri­mera Air Nordic SIA hefðu ekki mætt á sátta­fund með Flug­freyju­fé­lagi Íslands, sem rík­is­sátta­semj­ari boðaði til í gær. Skrifstofustjóri ríkissáttasemjara sagði að það hefði aldrei gerst í sögu embætt­is­ins að deiluaðili mætti ekki til boðaðs sátta­fund­ar. 

Í tilkynningunni frá Primera segir að félagið telji að ríkissáttasemjari hafi ekki lögsögu í málinu auk þess sem ekki sé til staðar vinnudeila sem boða þarf sáttafund til að leysa úr. Fyrir því eru nefndar nokkrar ástæður.

Til að mynda að Primera starfi ekki á íslenskum vinnumarkaði og standi auk þess ekki í kjaradeilu. Flugliðar um borð í flugvélum fyrirtækisins séu ekki meðlimir í Flugfreyjufélagi Íslands og hafi Flugfreyjufélagið því ekki umboð til að semja fyrir þeirra hönd. 

Með vísan til alls þessa var ríkissáttsemjari ítrekað upplýstur um að Primera Air myndi ekki mæta á boðaða fundi.

Misnota verkfallsréttinn

Þá er vikið að verkfallinu sem Flugfreyjufélagið boðaði á síðasta ári hjá Primera Air. 

„Félagsdómur tók þá verkfallsboðun til meðferðar og taldi hana ólögmæta. Kjósi Flugfreyjufélagið að halda málinu til streitu mun Primera Air sækja málið fyrir Félagsdómi líkt og fyrr enda telur félagið Flugfreyjufélag Íslands og Alþýðusamband Íslands vera að misnota hið mikilvæga tæki vinnumarkaðarins sem verkfallsrétturinn er.“

Telur Primera þó ekki rétt að flytja það mál í fjölmiðlum líkt og Alþýðusambandið og Flugfreyjufélagið kjósa að gera og mun því að óbreyttu ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK