Fannst áletrunin ekki rasísk

Myndin sem birtist af drengnum í peysunni í vefverslun H&M.
Myndin sem birtist af drengnum í peysunni í vefverslun H&M.

Frá því að umræða hófst um svartan dreng í peysu frá H&M með áletrun sem mörgum fannst lýsa kynþáttafordómum, hefur hótunum og skítkasti rignt yfir móður hans. Peysan umdeilda var tekin úr sölu hið snarasta eftir að athygli var vakin á málinu. Á peysuna var letrað: „Coolest Monkey In The Jungle“ eða „Svalasti apinn í frumskóginum“. H&M baðst afsökunar á að hafa móðgað fólk með myndinni og tók peysuna úr verslunum. Móðir piltsins segist hins vegar ekki líta svo á að peysan sé merki um kynþáttafordóma.

Teresa Mango, móðir hinnar fimm ára gömlu fyrirsætu, er sænsk og í dag birti ríkissjónvarpið þar í landi viðtal við hana, það fyrsta sem hún hefur gefið frá því að málið kom upp í síðustu viku.

„Þetta er leiðinlegt,“ segir hún um viðbrögðin sem hún fékk í kjölfar þess að málið komst í hámæli. Hin hörðu viðbrögð má líklega rekja til þess að eftir að málið kom upp skrifaði Mango á Facebook að fólk ætti að hætta að hrópa „úlfur, úlfur“ og „komast yfir þetta“.

„Í fyrstu reyndi ég að vera sterk og horfa framhjá þessu en maður getur ekki horft framhjá öllu,“ segir hún nú í viðtali við SVT. Hún hefur ekki tölu á öllum þeim skilaboðum sem hún hefur fengið. „Ég hef týnt tölunni. Ég er hætt að skoða þetta, ég ýti bara á „eyða“.“ 

Hún segir of mikið hafa verið gert úr málinu. „Mér finnst peysan ekki rasísk en ég veit vel hvað rasismi er. Ég hef sjálf verið kölluð api og ég þekki söguna en í þessu samhengi sé ég ekki tenginguna. En á sama tíma þá verðum við að virða skoðanir hvert annars og hvernig við upplifum hluti í lífinu,“ segir hún í samtali við SVT.

Mátaði hundruð flíka

Teresa Mango á ættir að rekja til Kenía. Hún býr nú ásamt eiginmanni sínum og syni suður af Stokkhólmi. Sonur hennar hefur nokkrum sinnum verið fyrirsæta og í haust fór hann í myndatökuna fyrir H&M. Mango segist ekki muna hvort hún eða faðir drengsins hafi verið viðstaddur. Drengurinn hafi mátað hundruð flíka en loks var það mynd af honum í hinni umdeildu peysu sem var birt í vefverslun H&M með fyrrgreindum afleiðingum.

Mango segir að vissulega beri H&M ábyrgðina á málinu en að hún taki afsökunarbeiðni verslunarinnar gilda.

Sonur hennar er ungur og veit enn ekki hvað rasismi er. Hún segir foreldrana ekki hafa viljað segja honum frá viðbrögðunum við myndbirtingunni. „Hann veit það eitt að hann er ofurstjarna og að öllum finnst hann svalur,“ segir móðir hans. 

Foreldrarnir hafa ráðið sér lögfræðinga og eru í viðræðum við H&M vegna mögulegrar skaðabótakröfu vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK