Ekki brýnast að lækka skatta í uppsveiflu

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lækkun skatta er ekki brýnasta málið í dag, sérstaklega í ljósi efnahagsuppsveiflunnar, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Hann segir að tímasetja þurfi skattalækkanir vel. 

Þetta kom fram í opnunarávarpi Bjarna á Skattadeginum sem Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og Deloitte stóðu fyrir í dag. 

Bjarni vék að samkeppnisumhverfi fjölmiðla á Íslandi og sagði ljóst að efla þyrfti rekstargrundvöll atvinnugreinarinnar. 

„Nú eru komin 30 ár frá útvarpsfrelsi. Síðan þá hefur okkur liðið eins og búið væri að koma á frelsi og að ekki þyrfti að gera meira en það hefur sýnt sig að fjölmiðlar hafa á átt erfitt uppdráttar.“

Bjarni sagði að ekki hefði verið erfitt að setja saman skattakaflann í viðræðum Sjálfstæðisflokksins við Vinstri græn og Framsóknarflokkinn. Þó að hann væri hlynntur því að halda sköttum í lágmarki þyrfti að tímasetja þær aðgerðir vel. 

„Þegar við sjáum vöxt í einkaneyslunni, mikinn hagvöxt og lítið atvinnuleysi þá segir það sig sjálft að ekki sé brýnast að lækka skatta. Það þarf ekki að hella olíu á bál sem brennur vel,“ sagði Bjarni og bætti við að skattbreytingar þyrftu að haldast í hendur við þróun á vinnumarkaðinum. Hann sagði að innan raða ríkisstjórnarinnar væri vilji til að skoða hvort  fýsilegt væri að gera persónuaflátt „útgreiðanlegan“.

Vandinn við grænar ívilnanir

Undir lok ávarpsins nefndi Bjarni að stjórnvöld stæðu frammi fyrir ákveðnum vanda í tengslum við skattívilnanir fyrir vistvæna bíla. 

„Í dag falla niður skattar og gjöld þegar vistvænn bíll er fluttur inn í landið og sú stefna hefur skilað árangri. Á sama tíma erum við að spyrja hvaðan fjármagn til að styðja betur við heilbrigðiskerfið eigi að koma,“ sagði Bjarni. Hann sagði að eftir því sem vistvænum bílum fjölgaði á götum landsins minnkaði skattstofninn. Til dæmis greiddu rafbílar engin eldsneytisgjöld. 

Þá sagði Bjarni að áformuð væri áframhaldandi hækkun á kolefnisgjaldinu en gjaldið þyrfti að kallast á við breytingar í samgöngumálum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK