Stóraukið gagnamagn í símum

AFP

Flutningur gagna um farsímanet hér á landi heldur áfram að aukast stórum skrefum á milli ára hvort sem litið er á gagnamagn um snjallsíma eða með nettengdum fartölvum og spjaldtölvum. Þannig jókst gagnamagn á farsímaneti um 52,9% á fyrri helmingi þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Netþjónusta á farsímanetinu jókst um tæp 25% milli ára.

Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunarinnar um fjarskiptamarkaðinn á Íslandi sem tekur til fyrri helminga áranna 2015-2017.

Skýrslunni er skipt upp eftir fastanetinu, farsímanetinu, internetinu og veltu og fjárfestingu á fjarskiptamarkaði.

Heimasíminn á undanhaldi

Heimasíminn er enn á hröðu undanhaldi þar sem notkun á fastlínunetinu hefur dregist saman milli ára. Fjöldi mínútna úr fastlínusímum minnkaði um 18,3% á fyrstu sex mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra og um 6.700 færri heimili voru með fastlínusíma á þessu ári en á síðasta ári.

Símanotendur hér á landi sendu færri sms-skilaboð á þessu ári en á síðasta ári. Þeim fækkaði um 4,4% milli ára.

Sé litið á markaðshlutdeild farsímafyrirtækjanna í gagnamagnsflutningi á farsímaneti kemur í ljós að Nova heldur forystunni líkt og á umliðnum árum og er með 63,8% markaðshlutdeild en Síminn hefur sótt á og er nú með 21,8% hlutdeild samanborið við 18,1% á sama tíma í fyrra. Hlutdeild Vodafone er 10% á þessum markaði.

Farsímaáskriftum fjölgaði á fyrri hluta ársins um tæp 5% og áskriftum þar sem eingöngu var um gagnaáskriftir að ræða fjölgaði mikið eða um 9,4%.

457.567 farsímakort

Tölur um heildarfjölda farsímaáskrifta sýna að alls voru 457.567 farsímakort hér á landi eftir fyrri helming yfirstandandi árs.

Nova var með flesta áskrifendur eða rúmlega 155 þúsund þar sem markaðshlutdeild Nova í fjölda viðskiptavina var 33,9% en Síminn kemur fast á eftir með 149.544 áskriftir eða 32,7% markaðshlutdeild. Áskriftir Vodafone voru rúmlega 128 þúsund (28% markaðshlutdeild og 365 var með 16.839 áskriftir (3,7%). Viðskiptavinum allra fjarskiptafyrirtækjanna fjölgaði á fyrri helmingi ársins frá sama tíma í fyrra.

Farsímanotendur notuðu símana einnig meira í fyrra mælt í fjölda mínútna úr farsímunum sem jókst á þessu ári þó símtölum úr farsímum fækkaði nokkuð á milli ára. Notkun 4G símkorta á farsímanetinu heldur áfram að aukast og voru um 286 þúsund virk 4G símkort í notkun á fyrri helmingi ársins samanborið við 218 þúsund í fyrra. 

Mikill vöxtur fjárfestinga

Fjárfesting á fjarskiptamarkaðinum jókst verulega á fyrri helmingi ársins, nam tæpum 4,7 milljörðum kr. og óx um 30% frá sama tíma í fyrra. Mest var aukningin vegna fjárfestinga í fastanetinu sem nam 2.459 milljónum króna á fyrri árshelmingi samanborið við 1.170 milljónir króna á sama tímabili á seinasta ári.

Tekjurnar 27,5 milljarðar

Heildartekjur af fjarskiptastarfseminni í landinu drógust hins vegar lítið eitt saman á fyrri helmingi þessa árs en tekjurnar voru engu að síður rúmlega 27,5 milljarðar kr. Stærsti einstaki hluti teknanna kom frá farsímarekstrinum eða um 7,8 milljarðar og af gagnaflutningum og internetþjónustu sem skilaði 5,3 milljarða kr. tekjum á fyrstu sex mánuðum ársins. Tekjur af fastanetinu voru tæpir fimm milljarðar og heildartekjur fyrir sjónvarpsþjónustu jukust og námu rúmlega 1,9 milljörðum króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK