Hægir á sölu dýrari íbúða í nýbyggingum

Nýbyggingar í Lindahverfinu í Kópavogi.
Nýbyggingar í Lindahverfinu í Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Dýrar íbúðir í nýbyggingum ganga hægar út en áður að mati fasteignasala og eru vísbendingar um að markaðurinn fyrir slíkar íbúðir sé að mettast.

„Það eru margir sem vilja kaupa slíkar íbúðir en það er hægara sagt en gert þegar fermetrinn kostar á bilinu 450-550 þúsund krónur. Efnahagur almennings nær ekki svona langt í mörgum tilvikum,“ segir Bogi Pétursson, fast­eigna­sali hjá Heim­ili.

Hann segir að seljendur hafi ekki sömu væntingar til íbúða í nýbyggingum sem séu að koma á markaðinn á næstunni vegna þess að þær hafi orðið þyngri í sölu á síðustu 8-10 vikum. 

„Salan er hægari en áður en gleymum ekki að hún var brjálæðislega hröð. Það er ekkert óeðlilegt að það taki 2-3 mánuði að selja fasteign.“

Í sama streng tekur Ingólfur Geir Gissurarson, framkvæmdastjóri Valhallar fasteignasölu. 

„Það sem ég hef heyrt er að hægst hafi verulega á sölunni og að byggingameistarar séu uggandi, sérstaklega þegar kemur að dýrum íbúðum á þéttingarreitum. Það kemur ekki á óvart, því almenningur hefur ekki ráð á þessum íbúðum í stórum stíl.

Ingólfur segir að á síðustu árum hafi vandamálið verið það að ekki sé verið að byggja fasteignir fyrir fjöldann. Enn vanti nægilegt framboð frá sveitarfélögum og segist hann ekki sjá fram á að það batni á næstu misserum. 

Allir byggja sömu gerð

„Það eru færri kaupendur að þessum dýrari eignum og okkar tilfinning er sú að markaðurinn fyrir þær sé að mettast,“ segir Stefán Hrafn Stef­áns­son, sölu­stjóri Stak­fells fast­eigna­sölu og tiltekur að íbúðirnar sem um ræðir séu á bilinu 100 til 140 fermetrar í nýjum fjölbýlishúsum. 

„Ef verðið er komið upp í 500 til 600 þúsund krónur á fermetrann þá skiptir verulegu máli hvort  íbúðin er 140 eða 70 fermetrar.“

Spurður hvers vegna hægt hafi á sölu slíkra íbúða segir Stefán Hrafn að þegar vöntun sé á ákveðinni gerð sé tilhneiging til að að allir rjúki til og byggi eins. „Síðan kemur í ljós að markaðurinn er mettur þegar búið er að selja hluta af þessum íbúðum og þá þyngist róðurinn.“

Nýjar íbúðir við Útvarpshúsið í Efstaleiti.
Nýjar íbúðir við Útvarpshúsið í Efstaleiti. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki óeðlilegt að hægi á

Þóra Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Borgar fasteignasölu, tekur ekki jafn djúpt í árinni og hinir. 

„Auðvitað er það þannig að mikill spenningur er í kringum margar nýbyggingar en síðan hægir eðlilega á. Rúmur helmingur íbúðanna selst hratt en hinar taka lengri tíma.“

Þóra segir vandamálið sé frekar að erfitt sé fyrir fyrstu kaupendur að koma á markaðinn, þá gangi tannhjólið skrykkjótt. „Íbúðir sem mér finnst vera dæmigerðar fyrir fyrstu kaup ganga ekki hratt út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK