Efast um fólksfjölgunarspá

Greiningardeild Arion banka telur að fólksfjölgun verði ekki jafnmikil á …
Greiningardeild Arion banka telur að fólksfjölgun verði ekki jafnmikil á Íslandi og mannfjöldaspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir og eins verði ekki jafnmikill hagvöxtur áfram og gert er ráð fyrir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Greiningardeild Arion banka hefur ákveðnar efasemdir um að fólksfjölgunin verði jafnmikil hér á landi og Hagstofan hefur spáð. Lítið samræmi sé milli hennar og hagvaxtarspár. Ef spá Hagstofunnar gengur eftir muni ástandið á húsnæðismarkaði versna talsvert. 

Íbúar á Íslandi verða 452 þúsund árið 2066 samkvæmt miðspá Hagstofu Íslands um mannfjölda. Landsmenn verða fleiri í lok spátímabils bæði vegna fólksflutninga og náttúrulegrar fjölgunar. Til samanburðar var mannfjöldinn 338 þúsund 1. janúar 2017.

Mannfjöldi er ein af lykilbreytum í efnahagsþróun ríkja. Hún gefur til kynna þróun vinnumarkaðar, sparnaðar en einnig þörf fyrir heilbrigðisþjónustu, samgöngumannvirki, húsnæði, matvæli og ótalmargt annað, segir í nýju vefriti greiningardeildar Arion banka.

Samkvæmt miðspá Hagstofu Íslands er fólksfjölgunin í fyrra, þegar íbúum fjölgaði um nærri 6.000, bara upphafið að mesta fólksfjölgunarskeiði þjóðarinnar frá árunum eftir seinna stríð. Sú fólksfjölgun mun að langmestu leyti verða borin uppi af aðfluttum umfram brottflutta en skv. spánni munu meira en 23.000 manns flytja til landsins frá síðustu áramótum til ársloka 2021.

Spáin þýðir einnig að landsmönnum muni fjölga svipað mikið næstu 5 árin og þeim fjölgaði síðustu 10 árin. Þó að sjaldan hafi verið jafnauðvelt að flytja á milli landa og þörf sé á auknu vinnuafli höfum við efasemdir um að slík fólksfjölgun geti staðist. Gildir þá einu hvort horft er til hagvaxtar, atvinnuleysis eða húsnæðismarkaðar.

Þýðir að byggja þarf tæplega 14 þúsund íbúðir á næstu 3 árum

„Öllum er kunnugt um að staðan á húsnæðismarkaði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, er erfið um þessar mundir. Stærsta ástæða þess er vel þekkt: Ekki hefur verið byggt nóg síðustu árin til að anna eftirspurn.

Miðað við spá um íbúðafjárfestingu í nýrri hagspá greiningardeildar er útlit fyrir að í kringum 10.000 íbúðir verði byggðar á landinu öllu á árunum 2017-2020. Út frá eldri mannfjöldaspá Hagstofunnar, að teknu tilliti til hraðari fólksfjölgunar í ár, myndi það þýða að unnið yrði hægt og bítandi á skortinum. En hvernig horfir með húsnæðismarkaðinn m.v. nýju mannfjöldaspána?

Ef ný mannfjöldaspá Hagstofunnar og fjárfestingaspá greiningardeildar rætast er ástandið á húsnæðismarkaði að öllum líkindum að fara að versna talsvert. Fjöldi íbúa eldri en 22 ára á hverja íbúð mun fara vaxandi og til þess að hægt sé að vinna á skortinum fyrir lok þessa áratugar þarf að byggja nærri 14.000 íbúðir frá þessu ári til og með 2020. Til samanburðar voru tæplega 13.000 íbúðir í öllum Kópavogi um síðustu áramót. Að okkar mati getur þetta líklega ekki gengið upp. Þar sem húsnæðisskorturinn í dag virðist nú þegar vera mikill, og hans vart víða um land, er ekki að sjá að þessi fólksfjölgun sem Hagstofan spáir geti gengið upp því einhvers staðar verður fólk að búa,“ segir í vefriti greiningardeildar Arion banka.

Það sem einnig skýtur skökku við er að mannfjöldaspá Hagstofunnar virðist í litlu samræmi við spár um hagvöxt, jafnvel þó að búferlaflutningar til landsins séu sagðir útskýrast af hagvexti, segir í vefriti Arion banka.

Getur falið í sér 7% atvinnuleysi

„Öllum greiningaraðilum, þar á meðal Hagstofunni, ber saman um [að] nú sé að hægja á hagvexti. Að öðru óbreyttu ætti það að þýða hægari vöxt vinnuaflseftirspurnar, sem að sama skapi ætti að birtast í því að það hægi á flutningum til landsins því færri ný störf er að fá. Þetta sést mjög vel að neðan þar sem búferlaflutningar hafa haldist í hendur við hagvöxt, einkum eftir inngöngu Íslands í EES árið 1994. Það skýtur því vægast sagt skökku við að framundan sé fordæmalaus fjölgun íbúa vegna fólksflutninga til landsins á sama tíma og m.a. Hagstofan sjálf spáir því að hagvöxtur fari minnkandi og nálgist langtímameðaltal sitt, og verði í raun litlu meiri en í öðrum Evrópulöndum,“ segir í vefriti greiningardeildar Arion banka.

Til þess að hvort tveggja spár um hagvöxt og mikla fólksfjölgun gangi upp þarf annaðhvort atvinnuleysi að aukast eða framleiðni að vaxa mjög hægt. Þar sem framleiðni vinnuafls vex almennt séð í frekar svipuðum takti, eða um 1-2% á ári, er líklegra að atvinnustigið þurfi undan að láta.

„Ef hagvaxtarspá greiningardeildar rætist, atvinnuþátttaka helst svo til óbreytt og framleiðni vex með svipuðum takti og í nýjustu spá Seðlabankans til 2019 en svo örlítið hraðar eftir það, þá gæti mannfjöldaspá Hagstofunnar falið í sér að atvinnuleysi fari upp í 7% innan fimm ára, sem er svipað og á árunum eftir hrun. Sem fyrr segir þá ræður atvinnuástand mjög miklu um hvort fólk flytjist milli landa svo að þessu leyti er mannfjöldaspáin býsna mótsagnakennd.

Það gæti þó verið að hagvaxtargeta og -horfur séu betri en við og aðrir greiningaraðilar teljum. Orsakasamhengið virkar í báðar áttir: Aukin fólksfjölgun getur aukið hagvöxt líkt og hagvöxtur eykur fólksflutninga til landsins. Því má kannski frekar spyrja, hvað þarf hagvöxtur að vera mikill til að atvinnuleysi verði eins og í okkar hagspá á sama tíma og fólksfjölgun verður skv. spá Hagstofunnar?“ segir í vefritinu.

Verði það raunin þarf hagvöxtur að vera um og yfir 3% á ári til þess að standa undir mannfjöldaspánni. Í sjálfu sér er það ekki fráleitt, en þó heldur bratt að hagvöxtur verði það mikill í svo langan tíma. Þar af leiðandi teljum við líklegast að hvorug sviðsmyndanna hér að neðan rætist, sem þýðir að fólksflutningar til landsins verði eitthvað hægari á næstu árum og meira í takt við spár um hagvöxt, segir enn fremur í vefriti greiningardeildar Arion banka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK