43 milljóna þrot bitcoin-grafara

Skiptum á þrotabúi Icemine ehf. lauk í september en engar eignir fundust upp í kröfurnar sem námu tugum milljóna króna. Félagið var stofnað í kringum rekstur gagnavers sem var leigt til svokallaðrar bitcoin-námuvinnslu. 

Hluthafar félagsins eru tveir Svisslendingar; Giorgio Massarotto með 90% og Andreas Fink með 10%. 

Í umfjöllun DV í apríl 2016 kemur fram að Massarotto hafi keypt fasteignina Klettatröð af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, Kadeco, í júlí 2014 gegnum félag sitt Icemine. Kaupverðið nam 130 milljónum og var greitt við afhendingu. Þá á Massarotto að hafa samið við Orkusöluna og HS veitur um kaup og flutning á þremur megavöttum af raforku. 

Massarotto réðst í breytingar á húsnæðinu í þeim tilgangi að breyta því í gagnaver. Samkvæmt heimildum DV var gagnaverið leigt út til fyrirtækja í Sviss og á Ítalíu sem stunda bitcoin-námuvinnslu en hún felur í sér að nota ofurtölvur til þess að búa til nýjar bitcoin-myntir. 

Samtals voru kröfurnar tæpar 43 milljónir og samkvæmt upplýsingum mbl.is voru helstu kröfuhafar Orkusalan og tollstjóri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK