Fjármálaeftirlitið gerir athuganir á verðmati lausafjármuna við vörslusviptingu hjá bönkunum

Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við verðmat lausafjármuna við vörslusviptingu hjá bönkunum.
Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við verðmat lausafjármuna við vörslusviptingu hjá bönkunum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjármálaeftirlitið hefur birt niðurstöður sínar úr athugunum á verðmati lausafjármuna við vörslusviptingu hjá Arion banka, Íslandsbanka (Ergo) og Landsbankanum. Markmið athugananna var að kanna hvort verðmat á lausafjármunum í kjölfar vörslusviptingar væri í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði. Kannað var hvort viðskiptavinir njóti góðs af því þegar lausafjármunir eru seldir á hærra verði en matsverð samkvæmt uppgjöri hljóðar upp á. FME skoðaði viðeigandi verkferla og tók úrtak kaupleigusamninga vegna einstaklinga og fengu uppgjörsreikninga í kjölfar vörslusviptinga á tímabilinu 1. janúar 2016 til 31. desember 2016. 

Hjá Arion banka ber helst að nefna að FME kom því á framfæri við bankann að samkvæmt mati eftirlitsins samrýmist það eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum að skuldari njóti góðs af því sé um það að ræða að bifreið sé seld á hærra verði en bankinn mat hana á í uppgjöri skuldara. FME gerði jafnframt athugasemdir við þá aðferðafræði sem tilgreind er í skuldaskjölum bankans, sem fellst í því að draga 20% afföll frá kauptilboði (uppítökuverði) bifreiða samkvæmt Bíló kerfi Bílgreinasambandsins sem heldur utan um seldar bifreiðar hjá bílaumboðunum. Að mati FME er þegar búið að taka tillit til affalla bifreiða sé miðað við kauptilboð samkvæmt Bíló kerfinu. Þess ber þó að geta að framkvæmd bankans hefur verið önnur en fram kemur í skuldaskjölum, þar sem bankinn hefur miðað við verðmat frá löggiltum bílasala við uppgjör, sem alla jafna er hærra en uppítökuverð samkvæmt Bílókerfinu. Jafnframt voru gerðar athugasemdir við að í þremur tilvikum leið langur tími frá því að bankinn tók bifreiðar í sína vörslu þar til að viðskiptavini var send tilkynning um það verð sem bankinn mat á bifreiðinni. Þá voru einnig settar fram nokkrar ábendingar um atriði sem FME telur að betur megi fara. 

Færri athugasemdir voru gerðar við verðmat lausafjármuna við vörslusviptingu hjá Íslandsbanka en þó voru gerðar athugasemdir við það að í tveimur tilvikum leið langur tími frá því að bankinn tók bifreið í sína vörslu þar til að viðskiptavini var send tilkynning um það verð sem bankinn mat bifreiðina á. Jafnframt setti FME nokkrar ábendingar fram um atriði sem eftirlitið telur að betur megi fara.

Eftirlitið gerði þær athugasemdir við verðmat á lausafjármunum við vörslusviptingu hjá Landsbankanum að framsetning á verðmatsaðferð bankans í ákvæði um uppgjör í samningi var ekki skýr og að í þremur tilvikum hafi langur tími liðið frá vörslusviptingu þar til viðskiptavini var sent uppgjör líkt og hjá hinum bönkunum Þá kom FME því á framfæri við Landsbankann að samkvæmt mati eftirlitsins samrýmist það eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum að skuldari njóti góðs af því sé um það að ræða að bifreið sé seld á hærra virði en bankinn mat hana á í uppgjöri til skuldara.

Fjármálaeftirlitið hóf athugun á verðmati lausafjármuna við vörslusviptingu hjá bönkunum í janúar 2017. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK