Hugbúnaðarlausnir Valitor í sókn í Bretlandi

Valitor leggur aukna áherslu á hugbúnaðarþróun að sögn Viðars Þorkelssonar, …
Valitor leggur aukna áherslu á hugbúnaðarþróun að sögn Viðars Þorkelssonar, forstjóra Valitor,

Undanfarin ár hefur Valitor þróast mikið og einbeitt sér í auknum mæli að hugbúnaðarlausnum og erlendum mörkuðum og hefur erlend velta Valitor aukist úr 18% af heildarveltu í byrjun árs 2013 í um 70% í dag.

Fyrirtækið er í samstarfi við stór erlend fyrirtæki sem nýta hugbúnaðarlausnir Valitor í ýmsum tilgangi. „Yfirleitt er það þannig að þessir aðilar sem við erum í samstarfi með sjá um sölu og markaðssetningu og við sköffum tæknina. Fyrirtækið hefur breyst gríðarlega mikið frá því að það hét Visa Iceland og var fyrst og fremst í kortaútgáfu,“ segir Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor.

Hálf milljón gjaldeyriskorta

Meðal erlendra verkefna Valitor er útgáfa svokallaðra gjaldeyriskorta fyrir hönd breska fyrirtækisins Caxton FX, en auglýsingar um kortið hafa birst á erlendum sjónvarpsstöðvum hér á landi. „Við höfum verið í samstarfi við Caxton FX í fjögur ár og það hefur gengið mjög vel. Við erum í dag með vel yfir 400 þúsund kort þar sem okkar hlutverk er að sjá um alla tæknina og útgáfu kortanna. Caxton FX er einn af þremur stærstu aðilunum í Bretlandi sem bjóða neytendum upp á gjaldeyriskort en það er mikil hefð fyrir þeim í Bretlandi og stór markaður.“

Þrátt fyrir að gjaldeyriskort séu ekki sérstakt breskt fyrirbæri hafa slík kort náð mestri útbreiðslu þar í landi. Hugmyndin að baki gjaldeyriskortunum er sú að einstaklingar eða fyrirtæki geti fengið sérstakt fyrirframgreitt greiðslukort til að halda utan um gjaldeyri á ferðalögum sínum. Þannig geta ferðalangar skammtað sér ákveðinni fjárhæð fyrir ferðalagið og haldið almenna greiðslukortinu sínu aðskildu. „Það er ákveðin sparnaðarhugsun á bak við þetta fyrirkomulag. Notkun kortanna endurspeglar það að þessi kort eru mest notuð í fríum þar sem notkunin er mest yfir helstu sumarleyfismánuðina,“ segir Viðar.

Í boði fyrir ferðamenn á Íslandi

„Það hefur komið til tals að markaðssetja gjaldeyriskort hérlendis en gjaldeyrishöftin stóðu kannski helst í vegi fyrir því. Aflétting haftanna býður náttúrlega upp á það að svona kort verði markaðssett hérlendis. Arion banki hefur verið að bjóða upp á svona kort í Leifsstöð fyrir erlenda ferðamenn, sem velja þá ákveðna fjárhæð til að hafa á greiðslukorti og nota það bara í fríinu.“

Gjaldeyriskort hafa verið í mikilli sókn undanfarið en kortin sem Valitor og Caxton FX gefa út í sameiningu byggjast á svokölluðu fjölmyntaveski (e. multi currency e-wallet) sem er hannað af Valitor og er rafrænt veski sem veitir eigandanum rauntímayfirlit yfir verðmæti heildarinneignar og stöðu gjaldmiðla í veskinu.

„Svo gott sem öll vinna af okkar hálfu í tengslum við þessi kort fer fram hérlendis. Það er stór hópur fólks að þróa hugbúnað og greiðslumiðlunarlausnir. Starfsemi okkar í dag byggist að miklu leyti á hugbúnaðarþróun og rekstri á upplýsingatæknikerfum. Við erum með sölufólk í Bretlandi, en hjá okkur starfa um það bil 100 af 370 starfsmönnum við hugbúnaðarþróun. Meginþorri þeirra er í skrifstofum okkar að Dalshrauni í Hafnarfirði en síðan erum við með teymi í Danmörku. Í dag erum við örugglega eitt stærsta hugbúnaðarhús á Íslandi.“

Fleiri verkefni í gangi

Meðal annarra stórra alþjóðlegra verkefna Valitor má nefna samstarf við kanadíska fyrirtækið Hyperwallet, sem er umsvifamikið í Norður-Ameríku. Þá vinnur Valitor í samstarfi við Wex að stóru verkefni þar sem ferðaskrifstofur nýta tækni frá Valitor til að sjá um allar greiðslur við bókun flugsæta. „Ferðaþjónustuverkefnið hjá Wex er mjög stórt og sennilega eitt það stærsta á sínu sviði í Evrópu,“ segir Viðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK