Samvera meginmarkmið símaleiksins

Stafræni samkvæmisleikurinn líkist blekkingaborðspilum. Hann gengur út á að vera …
Stafræni samkvæmisleikurinn líkist blekkingaborðspilum. Hann gengur út á að vera saman og síminn þjónar aðeins sem spilastokkur. Mynd/Tasty Rook

Fyrsti leikur íslenska leikjafyrirtækisins Tasty Rook, Triple Agent!, kemur út í dag. Um er að ræða stafrænan samkvæmisleik sem snýst um að vera með öðrum, fremur en að hver leikmaður poti í sinn skjá. Triple Agent líkist klassískum „„blekkingaborðspilum“ og er spilaður á aðeins einn síma. Leikurinn var tilnefndur til Nordic Sensation-verðlaunanna í vor og er ókeypis. 

Fyrsti leikur fyrirtækisins

Triple Agent er fyrsti leikur fyrirtækisins Tasty Rook sem samanstendur af Sigursteini J. Gunnarssyni og Torfa Ásgeirssyni. Honum svipar til svokallaðra „blekkingarborðspila“, leikja á borð við Varúlf og Mafíu sem margir Íslendingar eflaust þekkja.

Leikurinn er hugsaður fyrir 5-9 leikmenn. Í honum eru nöfn allra leikmanna skráð í síma sem síðan úthlutar hverjum og einum leynilegt hlutverk. Annað hvort vinnur leikmaður hjá „The Service“ eða sem svikari fyrir „VIRUS“. Hlutverk hvers einstaklings er leynilegt og fólk keppist við að uppgötva hver sé svikarinn.

Gengur út á að vera með öðrum

Aðspurður segir Sigursteinn það besta við Triple Agent vera að hafa samkvæmisleik tilbúinn hvar sem er. „Það er eitthvað svo frábært við að geta verið í partíi eða útilegu með vinum þínum og geta bara tekið upp símann og byrjað að spila,“ segir Sigursteinn.

Síminn þjónar sem „spilastokkur“. Hlutverk hans er því að passa að leikurinn gangi sinn gang án þess að nokkur þurfi að liggja yfir borðspilareglum. Sigursteinn segir helsta styrkleika Triple Agent vera þann, miðað við aðra símaleiki,  að aðeins einn sími er notaður. Þannig gangi leikurinn út á samveru.

„Út af því að síminn hjálpar okkur að spila saman, þá gengur leikurinn út á að vera með öðrum og horfa í augun á hinum, á meðan maður lýgur að honum. Í stað þess að allir séu í sínum síma að pota í skjáinn,“ segir Sigursteinn.

Samvinna þeirra félaga er góð, en Sigursteinn J. Gunnarsson, vinstra …
Samvinna þeirra félaga er góð, en Sigursteinn J. Gunnarsson, vinstra megin, vinnur frekar í leikjahönnun á meðan Torfi Ásgeirsson, hægra megin, sinnir tæknilegri hlið verkefnisins. Ljósmynd/Sigursteinn J. Gunnarsson

Vinir úr menntaskóla vinna saman

Sigursteinn og Torfi hafa lengi viljað vinna saman, en þeir hafa verið vinir síðan þeir kynntust í menntaskóla fyrir áratug. Sigursteinn er nýkominn úr leikjahönnunarnámi í New York University en Torfi hefur starfað hjá íslensku leikjafyrirtækjunum Gogogic og Modio.

Samvinna þeirra er góð, þar sem Torfi sinnir tæknilegri hlið verkefna en Sigursteinn er fremur við hið sjónræna og sér um textalegu hliðina. Saman unnu þeir að hönnuninni. „Við gerðum í rauninni allt í leiknum sjálfir,“ segir Sigursteinn, „þetta var mikil samvinna.“

Þeir gerðu fyrst nokkrar tilraunir með alls kyns leiki en voru ekki nógu ánægðir með útkomuna. Sigursteinn segir að eftir að hópurinn hafði prófað sig áfram, hafi hann komist að því að lykillinn væri að hafa leikinn einfaldan, með stuttum umferðum þar sem hægt væri að velja um marga möguleika. „Þannig varð hver leikur stuttur, skemmtilegur og spennandi,“ segir Sigursteinn.

Tilnefndur til verðlauna

Leikurinn var tilnefndur til Nordic Sensation-verðlaunanna í vor. Tasty Rook hlaut nýverið styrk Rannís, Fræ, til að styðja við gerð fleiri stafrænna samkvæmisleikja. Í framtíðinni vilja þeir halda áfram að gera leiki sem ganga út á samveru í stað einveru, sem getur oft fylgt tölvuleikjum og símaleikjum.

Leikurinn er ókeypis og kemur bæði út á iOS og Android.

Hér má sjá kynningarmyndband leiksins:


 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK