Húsnæðisverð lækkaði í júní

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,2% í júní, frá fyrri mánuði, samkvæmt vísitölu íbúðaverðs sem birtist á vef Þjóðskrár. Þetta er fyrsta lækkunin milli mánaða síðan í júní 2015, en þá lækkaði verð um 0,1%. Lækkunin nú er veruleg breyting frá hækkunarþróun síðustu 23 mánaða. Frá áramótum hafa átt sér stað stöðugar hækkanir á húsnæðismarkaðnum og hafa hækkanir milli mánaða verið sögulega háar, t.d. hækkaði húsnæðisverð um 2,7% milli janúar og febrúar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði. Þar er bent á að hagdeild sjóðsins hafi varað við þróun sem þessari fyrr á árinu.

„Benti hagdeildin þá á að miklar hækkanir á fasteignaverði, sökum misræmis í vexti framboðs og eftirspurnar, gætu leitt til fasteignaverðs sem væri of hátt og myndi það hugsanlega lækka þegar framboð tæki við sér á ný. Hvatti hagdeildin almenning til að stíga varlega til jarðar í fasteignakaupum og varast of mikla skuldsetningu,“ segir í fréttatilkynningu.

Þar segir jafnframt að samkvæmt gögnum Seðlabankans hefur framboð á íbúðum á sölusíðum fasteignasala aukist umtalsvert á undanförnum mánuðum eftir samfelldan samdrátt framboðs síðastliðin misseri.

„Það er óvíst hvað gerist næstu mánuði, en æ skýrari merki eru um að markaðurinn kunni að vera farinn að kólna og verðhækkanir séu nú á undanhaldi. Mikilvægt er þó að horfa til lengra tímabils til að fá skýrari mynd og áhugavert verður að skoða verðþróunina á næsta ársfjórðungi,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK