Hótel sem tengir sig við sögu miðborgarinnar

Rannveig Eir Einarsdóttir og Birna Bragadóttir reka hótelið.
Rannveig Eir Einarsdóttir og Birna Bragadóttir reka hótelið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýtt glæsihótel á Laugavegi verður opnað formlega næsta fimmtudag. Það heitir Sandhótel og verður fullbyggt í sjö samtengdum húsum á Laugavegi 32b, 34b, 34a og 36. Húsin snúa að Grettisgötu og Laugavegi. Göngustígur liggur í gegnum hótelið og tengir göturnar saman.

Til að byrja með verða 53 herbergi á hótelinu, á Laugavegi 34a og 36. Húsin tvö hafa verið gerð upp og byggð tvö ný bakhús fyrir hótelið sem eru álíka há. Á milli gömlu framhúsanna og nýju bakhúsanna verður til nýtt port. Þar verða seldar veitingar frá Sandholt bakaríi.

Samhliða fyrsta áfanga verður opnaður nýr veitingastaður, Lauf, á Laugavegi 34a. Vísar nafnið til grænna áherslna við val á hráefnum. Frá veitingastaðnum er innangengt í móttöku hótelsins.

Með haustinu bætast svo við 13 herbergi í svonefndu Guðsteinshúsi á Laugavegi 34. Það er kennt við verslun Guðsteins Eyjólfssonar á jarðhæð. Verslunin verður þar áfram með óbreyttu sniði en efri hæðum hússins hefur verið breytt.

Tvö hús á baklóð endurbyggð

Hótelið verður svo fullbyggt vorið 2018 þegar 9-12 herbergi bætast við á Laugavegi 32b og 34b. Þau hús eru á baklóð og verða endurbyggð.

Húsin sem hafa verið gerð upp eiga sér langa sögu. Verslun Guðsteins verður 100 ára á næsta ári og Sandholts bakarí, á Laugavegi 36, er nú rekið af 5. kynslóðinni í Sandholts-fjölskyldunni. Þá fæddist Halldór Laxness í einu bakhúsanna, Laugavegi 32b, árið 1902.

Bakaríið er í húsinu lengs til vinstri á jarðhæð Laugavegar …
Bakaríið er í húsinu lengs til vinstri á jarðhæð Laugavegar 36. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjónin Rannveig Eir Einarsdóttir og Hilmar Þór Kristinsson hafa stýrt uppbyggingunni. Þau eru jafnframt meðal eigenda.

Sigurður Hallgrímsson var arkitekt í verkefninu og Guðbjörg Magnúsdóttir innanhúshönnuður. Þá var Ragna Sif Þórsdóttir þeim einnig til ráðgjafar við hönnun og ljósmyndun.

Rannveig Eir segir þau skilgreina Sandhótel sem hágæða „boutique“-hótel. Hún segir verkefnið hafa hafist fyrir rúmlega þremur árum. Þau hafi haft það að leiðarljósi að vanda til verka. Það birtist í smáatriðum sem skapi heildarmyndina og einstaka upplifun í hverju rými. Granít og marmari er á öllum baðherbergjum hótelsins, gegnheilt parket og sérsmíðaðar innréttingar og hurðir frá HBH smíðaverkstæði. Fluttur hafi verið inn húsbúnaður frá Restoration Hardware í Bandaríkjunum og lín frá Ítalíu. Sængur séu frá Duxiana, svo dæmi sé tekið.

Sum húsin eru friðuð

Rannveig Eir segir gömlu framhúsin við Laugaveg hafa verið gerð upp í samráði við Pétur H. Ármannsson, arkitekt hjá Minjastofnun. Sum húsin séu friðuð.

Hún segir hvert rými bjóða upp á upplifun fyrir gesti. Það birtist til dæmis í fjölda listaverka sem voru valin með ráðgjöf Ásmundar Sturlusonar. „Við leggjum mikla áherslu á list á hótelinu. Við erum með nútímalist og listaverk á hverju einasta herbergi, í móttöku og öllum alrýmum. Við höfum lagt mikinn metnað í að vanda til verka.“

Sand Hótel á Laugavegi.
Sand Hótel á Laugavegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rannveig Eir nefnir sem dæmi að í portinu sé höggmynd eftir Sigurð Guðmundsson og í móttöku vatnslitamyndir eftir Ragnar Kjartansson. Þá sé Egill Sæbjörnsson að vinna að nýju útilistaverki sem verði í nýjum garði hjá silfurreyninum fræga við Grettisgötuna.

„Okkur finnst mikilvægt að gera garðinn þannig að allir geti notið, nágrannar, gestir og allir sem hér fara um. Við ætlum að gera hann þannig úr garði að það verði prýði að. Það skiptir okkur miklu máli. Egill er með skemmtilegar hugmyndir. Ég get ekki sagt meira í bili. Þetta mun vekja áhuga fólks. Ég get lofað því,“ segir hún.

Sandhótel dregur nafn sitt af Sandholt bakaríi á jarðhæð Laugavegar 36. Bakaríið var stofnað 1920 og byggði stofnandinn, Stefán Sandholt, húsið fyrir reksturinn.

Rannveig Eir segir hafa verið lagða áherslu á að tengja hótelið við sögu húsanna, bakarann, klæðskerann og rithöfundinn. „Við tengjum Guðstein við hótelið með ýmsum hætti. Saumakona verslunarinnar sérsaumaði t.d. púða úr fatnaði af lagernum hjá Guðsteini. Síðan er starfsfólkið allt í einkennisfatnaði frá Guðsteini. Þar er sama útlit fyrir konur og karla til að undirstrika að jafnrétti sé okkur mikilvægt,“ segir Rannveig Eir. Hún segir að gestum hótelsins muni bjóðast konfekt og veitingar frá bakarínu, sem þannig verði hluti af hótelinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK