Farið fram á 3 ára dóm yfir Björgólfi

Björgólfur Guðmundsson.
Björgólfur Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Franskur saksóknari í sakamáli gegn Björgólfi Guðmunds­syni, fyrr­ver­andi aðal­eig­anda Lands­bank­ans, Gunn­ari Thorodd­sen, fyrr­ver­andi yf­ir­manni Lands­bank­ans í Lúx­em­borg, og fimm öðrum ein­stak­ling­um, sem tengj­ast meint­um blekk­ing­um vegna veðlána sem bank­inn veitti, fer fram á skilorðsbundna fangelsisdóma yfir mönnunum auk miskabóta.

Aðalmeðferð málsins hófst í byrjun mánaðarins og lauk nú á þriðjudaginn. Á vef franska blaðsins Les Echos er greint frá því að farið sé fram á þriggja ára fangelsi yfir Björgólfi og að hann greiði 300 þúsund evrur í bætur vegna aðkomu sinnar að málinu. Þá er einning farið fram á þriggja ára skilorðsbundinn dóm yfir tveimur yfirmönnum bankans í Lúxemborg og að þeir greiði 100 þúsund evrur í bætur.

Þetta er fyrsta málið þar sem íslenskir bankamenn eru saksóttir erlendis vegna efnahagsbrotamála. Málið hef­ur þvælst mikið bæði í Frakklandi og Lúx­em­borg, en sak­sókn­ari í Lúx­em­borg felldi málið niður á sín­um tíma meðan sak­sókn­ari í Frakklandi ákvað að gefa út ákæru.

Í mál­inu er tek­ist á um hvort Lands­bank­inn í Lúx­em­borg hafi blekkt viðskipta­vini sína sem bank­inn veitti eins kon­ar lausa­fjár­lán með veði í fast­eign­um. Var hug­mynd­in að viðskipta­vin­ur­inn fékk hluta af verðmæti veðsins út­greiddan en bank­inn fjár­festi fyr­ir af­gang­inn af veðinu þannig að lánþeg­inn þyrfti í raun ekki að borga lánið sjálf­ur til baka.

Þegar fjár­mála­markaðir fóru á hliðina varð niðurstaðan þó oft allt önn­ur og fjöl­marg­ir viðskipta­vin­ir töpuðu mikl­um fjár­hæðum. Í þessu máli er tek­ist á um hvort starfs­menn bank­ans og tveir milliliðir, sem seldu viðskipta­vin­um lán­in, hafi gerst sek­ir um að blekkja 108 lán­taka með því að hafa veitt allt veðið án þess að hafa fengið alla upp­hæðina greidda sjálf­ir. Málið hef­ur fengið nokkra at­hygli í Frakklandi, sér­stak­lega þar sem einn þeirra sem tel­ur sig hafa verið blekkt­an er Enrico Maci­as, þekkt­ur söngv­ari í heima­land­inu.

Eft­ir að ákæra var gef­in út sagði Gunn­ar í sam­tali við mbl.is að ákær­an hefði komið sér á óvart. „Það er að minnsta kosti ekk­ert sem ég hef séð, eng­ir tölvu­póst­ar, gögn, sam­töl eða neitt slíkt, sem staðfest­ir að eitt­hvað mis­jafnt eða óheiðarlegt hafi átt sér stað,“ sagði Gunn­ar.

Þá hafnaði lögmaður Lands­bank­ans, Bern­ard Dartevelle, einnig ásök­un­um í ákær­unni. Sagði hann ákær­una ekki byggja á nein­um efn­is­leg­um sönn­un­ar­gögn­um fyr­ir utan einn tölvu­póst.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK