3,2% atvinnuleysi í apríl

Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,5% og hlutfall atvinnulausra af …
Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,5% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,2%. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

199.300 manns á aldrinum 16-74 ára voru að jafnaði á vinnumarkaði í apríl sem jafngildir 83,2% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 192.900 starfandi og 6.400 án vinnu og í atvinnuleit. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,5% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,2%. Samanburður mælinga fyrir apríl 2016 og 2017 sýnir að þrátt fyrir að fjöldi fólks á vinnumarkaði hafi aukist um 3.500 þá lækkaði atvinnuþátttaka um 0,6 prósentustig. Fjöldi starfandi jókst um 6.600 manns og hlutfall starfandi af mannfjölda um 0,8 stig. Atvinnulausum fækkaði um 3.100 manns og hlutfall þeirra af vinnuaflinu lækkaði um 1,6 stig. Á vormánuðum eykst venjulega eftirspurn ungs fólks eftir atvinnu og er það vel merkjanlegt í þessari mælingu. Af öllum atvinnulausum í apríl voru 52% á aldrinum 16-24 ára og var atvinnuleysi á meðal þeirra 9,7%.

Á vef Hagstofunnar er bent á að íslenskur vinnumarkaður sveiflist reglulega milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu var fjöldi fólks á vinnumarkaði 202.700 í apríl 2017 sem jafngildir 84,1% atvinnuþátttöku, sem er lækkun um 0,6 prósentustig frá mars 2017.

Fjöldi atvinnulausra í apríl var samkvæmt árstíðaleiðréttingunni 4.600 og hefur fjölgað um 1.400 manns frá áætluðum fjölda atvinnulausra í mars. Hlutfall atvinnulausra hækkaði því á milli mars og apríl 2017 um 0,7 stig, úr 1,6% í 2,3%. Leiðrétt hlutfall starfandi fólks í apríl 2017 var 82,2%, sem er 1,2 stigum lægra en í mars. Þegar horft er til síðustu sex mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuleysi hefur lækkað um 0,4 prósentustig, en á síðustu tólf mánuðum hefur það lækkað um 0,6 stig. Hlutfall starfandi síðustu sex mánuði hefur hækkað um 0,7 stig og þegar horft er til þróunar síðustu tólf mánaða hefur hlutfallið aukist um 1,3 stig.

Apríl 2017 nær til fjögurra vikna, eða frá 3. til 30. apríl. Úrtakið var 1.216 einstaklingar á aldrinum 16–74 ára sem valdir voru af handahófi úr þjóðskrá. Þegar frá eru taldir þeir sem voru látnir eða búsettir erlendis reyndist nettóúrtakið 1.181 einstaklingur. Alls fengust nothæf svör frá 800 einstaklingum sem jafngildir 67,7% af endanlegri svörun. Allar tölur hafa verið vegnar eftir kyni og aldri. Vikmörk mánaðarlegra niðurstaðna um atvinnuþátttöku eru ±2,6 stig, hlutfall starfandi ±2,7 stig og og atvinnuleysi ±1,4 stig. Allar fjöldatölur eru afrúnaðar að næsta hundraði. Tölur fyrir fyrstu tvo mánuði nýjasta ársfjórðungsins eru bráðabirgðatölur þar til ársfjórðungi lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK