„Norska leiðin“ gæti virkað

Morgunblaðið/Ómar

„Norska leiðin“ gæti hjálpað fyrstu kaupendum á Íslandi en fyrstu merki benda til að tekist hafi að slá á hækkun íbúðaverðs í Noregi í kjölfar þess að gerð var krafa um meira eigið fé við kaup á annarri íbúð í Ósló og á Óslóar-svæðinu. Sambærilegum takmörkunum hefur verið beitt í ýmsum löndum og er meðal annars gert ráð fyrir þeim í samevrópsku regluverki til að tryggja fjármálastöðugleika. Rætt hefur verið um hvort sambærilegar aðgerðir séu nauðsynlegar hér á landi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði. Þar er vitnað í Hermann Jónasson, forstjóra Íbúðalánasjóðs, sem segir sjóðinn fylgjast náið með aðgerðum Norðmanna.

„Ég sat nýverið fund ásamt ráðherra húsnæðismála, Þorsteini Víglundssyni, og norskum starfsbróður hans. Norski húsnæðismálaráðherrann sagði aðgerðirnar þar í landi hafa náð að kæla fasteignamarkaðinn. Við þurfum að líta til reynslu þeirra. Þá gætu tillögur sem von er á frá aðgerðarhópi ríkisstjórnarinnar að mínu mati brotið blað varðandi húsnæðisvandann hér á landi. Hugsanlega verða það umfangsmestu húsnæðisaðgerðir sem gripið hefur verið til í áratugi,“ er haft eftir Hermanni.

Í tilkynningu Íbúðalánasjóðs segir að markaðsgreinendur á vegum stóru viðskiptabankanna hafi varað við upptöku álíka reglna og eru í Noregi hér á landi.

„Heyrst hafa efasemdir um að hefðbundin þjóðhagsvarúðartæki, á borð við hömlur á lánshlutfalli, geti slegið á íslensku húsnæðisbóluna þar sem hækkun fasteignaverðs hér skýrist einkum af framboðsskorti. Sumir telja vænlegri leið að bankarnir grípi til eigin aðgerða, t.d. með því að herða lánareglur sínar,“ segir í tilkynningunni.

Að mati hagdeildar Íbúðalánasjóðs gæti takmörkun á lánshlutfalli af hálfu stjórnvalda komið til greina í þeim tilgangi að koma í veg fyrir frekari ofhitnun markaðarins og bent á að það sé í höndum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands að ákveða hvort settar verði hömlur á lánshlutfall hér á landi. Næsti fundur fjármálastöðugleikaráðs, sem þessir aðilar leiða, er 20. júní og miðað við ummæli sem fallið hafa opinberlega er ekki útilokað að álykta að aðgerðir sem þessar gætu komið til skoðunar á þeim fundi.

„Ljóst er að margt þarf að koma saman til að leysa þann bráða húsnæðisvanda sem Íslendingar eiga við að etja,“ segir í tilkynningunni.


Hagdeild Íbúðalánasjóðs telur að reynsla Norðmanna sýni að það að auka eiginfjárkröfu þeirra sem eiga fleiri en eina fasteign, og eru því ekki að kaupa fasteign til eigin nota, geti borið árangur á svæðum þar sem framboðsskortur ríkir og hjálpað fyrstu kaupendum með því að tempra spákaupmennsku á íbúðamarkaði. Á árinu 2016 nam meðalhækkun fasteignaverðs í Noregi 10,1% en hækkun fasteignaverðs á Íslandi í fyrra var um 15%. Vegna reglugerðarinnar, sem tók gildi í Noregi um áramótin, hefur dregið verulega úr húsnæðisverðhækkunum það sem af er þessu ári. Norðmenn gera nú kröfu um 40% eigið fé við kaup á íbúð númer tvö, þ.e. íbúð til annars en eigin nota og skilgreinist því ekki sem eigið heimili. Aðrir þættir, eins og hraðari uppbygging húsnæðis og minnkandi fólksfjölgun, eru líka taldir hafa átt þátt í að kæla norska fasteignamarkaðinn, sem hefur hækkað viðstöðulaust síðustu ár.

Í tilkynningunni segir það skiljanlegt að hérlend fjármálafyrirtæki fagni ekki takmörkunum á lánshlutfalli í lánveitingum vegna íbúðarkaupa í fjárfestingarskyni. Hins vegar gætu þær verið nauðsynlegar til að skapa aukið rými, til dæmis fyrir fyrstu kaupendur til þess að komast inn á markaðinn. Ef fjársterkir aðilar sem eiga fasteign fyrir þyrftu að binda meira eigið fé til að eignast fleiri eignir, gæti það dregið úr eftirspurn frá þeim og leitt til temprunar á hækkun fasteignaverðs hér á landi.

„Beiting slíkra þjóðhagsvarúðartækja skyldi þó að mati hagdeildar Íbúðalánasjóðs ávallt vera hófleg. Slík aðgerð ætti að hafa það eina markmið að skapa jafnvægi og einungis ætti að beita þessu tæki þegar skýr merki eru um ofhitnun á markaði. Bein verðstýring hins opinbera er hins vegar aldrei æskileg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK