Birta tölur um skiptifarþega mánaðarlega

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Isavia greinir umferð um flugvöllinn niður eftir því hvort fólk er að koma til landsins, fara frá landinu eða er skiptifarþegar, þ.e. hefur viðdvöl á Keflavíkurflugvelli án þess að fara út úr flugstöðinni. Þessar tölur birtir Isavia um hver mánaðamót. Að jafnaði eru rúmlega 2/3 farþeganna komu- og brottfararfarþegar og 1/3 skiptifarþegar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu og Isavia sem send var út í ljósi umræðu síðustu daga um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll.

Á föstudaginn var greint frá því á vef Túrista og mbl.is að talning Ferðamálastofu á erlendum ferðamönnum hér á landi gæti verið skekkt þar sem talningin fari fram við vopna­leit­ina á Kefla­vík­ur­flug­velli og þar með eru all­ir sem í gegn­um hana fara með er­lend vega­bréf tald­ir sem túrist­ar.

Í tilkynningu Isavia og  ferðamálastofu segir að talning Ferðamálastofu sé hugsuð sem viðbótarupplýsingar til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum.  Um er að ræða handtalningu við brottför og er þess gætt áður en niðurstöður talninga eru birtar að samhljómur sé við brottfarartölur Isavia. Ef munurinn er meira en 1% er það skoðað sérstaklega og skýringa leitað.

„Isavia og Ferðamálastofa hafa átt farsælt samstarf um þjóðernatalningar síðastliðin 15 ár. Þá hafði þjóðernatalning, sem sinnt var af Útlendingastofnun, legið niðri um skeið og var talið nauðsynlegt að koma henni á aftur. Til þessa hafa farþegar af 18 þjóðernum verið taldir sérstaklega en nú í vikunni mun þeim fjölga í 28, sem skila mun betri greiningu,“ segir í tilkynningunni. Bent er á að fyrirvarar varðandi þá aðferðafræði sem notuð er við þjóðernatalningarnar eru vel þekktir og er reglulega haldið á lofti.

„Þeir snúa m.a. að því að tölurnar ná til brottfara allra erlendra ríkisborgara, þ.m.t. þeirra sem hér eru búsettir um lengri eða skemmri tíma.  Alla jafna vega þessir farþegar ekki þungt í heildarmyndinni en geta haft aukið vægi á ákveðnum tímum, t.d. í tengslum við jól og áramót, sem hefur verið tilgreint sérstaklega þegar tölurnar eru kynntar,“ segir í tilkynningunni.

Þó er það viðurkennt að í vissum tilfellum geti þeir farþegar sem hafa keypt sér flug með einu flugfélagi til Íslands og öðru félagi áfram, án þess að gista í landinu, verið taldir. Byggt á skipulagi umferðar um flugvöllinn er mat Isavia að farþegar sem aðeins hafa viðdvöl í landinu til skemmri tíma, eða tengja sjálfir á milli flugfélaga, hafi í gegnum tíðina ekki verið að valda skekkju í þjóðernatalningunum svo neinu nemi. Isavia mun á næstunni gera sérstaka úttekt til að meta þessa áhrifaþætti betur samkvæmt tilkynningunni.

„Líkt og bent hefur verið á geta ýmsir þættir haft áhrif á misræmi í farþega- og gistináttatölum, s.s. breytt ferðahegðun (t.d. færri gistinætur eða aðrir gistimöguleikar) og farþegasamsetning. Vert er að ítreka mikilvægi þess að horfa aldrei einangrað á einn mælikvarða við mat á umfangi ferðaþjónustu,“ segir í tilkynningunni. Því er jafnframt bætt við að nú í sumarbyrjun fer af stað landamærakönnun á Keflavíkurflugvelli í samvinnu Hagstofu Íslands og Ferðamálastofu, framkvæmd af Epinion, alþjóðlegu fyrirtæki með mikla reynslu af gerð flugvallakannana. „Hún á er fram líða stundir að skila áreiðanlegri tölfræði um bakgrunn, útgjöld, atferli og viðhorf ferðamanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK