Hagvöxtur í Kína tekur kipp

Menn að störfum í bílaverksmiðju í borginni Fuyang í austurhluta …
Menn að störfum í bílaverksmiðju í borginni Fuyang í austurhluta Kína. AFP

Kínverska hagkerfið virðist ætla að byrja árið vel. Á mánudag birti kínverska hagstofan tölur sem sýna að á fyrsta ársfjórðungi mældist hagvöxtur þar 6,9% á ársgrundvelli og hefur ekki mælst hærri í 18 mánuði. Er þetta meiri hagvöxtur en búist hafði verið við en könnun sem Bloomberg gerði meðal sérfræðinga benti til þess að markaðurinn ætti von á 6,8% hagvexti á fjórðungnum. Jókst hagvöxtur einnig á ársfjórðungnum á undan og hefur það ekki gerst í sjö ár að hagvöxtur í Kína aukist tvo fjórðunga í röð.

Árið 2016 óx kínverska hagkerfið um 6,7% og fyrr á þessu ári sagðist Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, reikna með að hagvöxtur 2017 yrði í námunda við 6,5%.

Fasteignir, iðnaður og lántökur

Er þróunin á fyrsta ársfjórðungi einkum tengd miklum innviðaframkvæmdum ríkisins og áframhaldandi uppsveiflu á fasteignamarkaði. Fjárfesting, smásala og útflutningur jókst líka meira en spáð hafði verið og segir Reuters að það bendi til þess að skriðþungi sé til staðar í hagkerfinu sem geti varað a.m.k. fram á sumarið. Iðnaður virðist vera að sækja í sig veðrið og var slegið nýtt met í stálframleiðslu í marsmánuði.

Sala á nýju íbúðarhúsnæði jókst um 18% í mars og segir FT það til marks um að kaupendur séu að reyna að tryggja sér eign áður en strangari reglur um fasteignakaup taka gildi. Nýju reglurnar eiga að draga úr spákaupmennsku á fasteignamarkaði og hægja á þeirri miklu fasteignabólu sem hefur verið að myndast undanfarin misseri og ár.

Áhyggur og gagnrýni

Sitt sýnist hverjum um horfurnar í Kína. FT hefur eftir markaðsgreinanda hjá hugveitunni China Policy að sá hagvöxtur sem núna mælist í landinu sé ósjálfbær og að tölur fyrsta ársfjórðungs verði að meta með tilliti til þess að lántökur jukust og að óvenjumikið var um að stórar byggingarframkvæmdir færu af stað.

Veruleg hækkun á fasteignamarkaði og mikil skuldsetning atvinnulífsins veldur sérfræðingum áhyggjum og sumir hafa gagnrýnt kínversk stjórnvöld fyrir að reiða sig um of á hefðbundnar örvunaraðgerðir á borð við fjárfestingu í innviðum til að halda hagvexti uppi. Á milli ára jukust útgjöld ríkis og sveitarfélaga um 21%.

Reiknað á ársgrundvelli mælist hækkun ráðstöfunartekna almennings um 7,0% og hafa ekki aukist jafnhratt síðan 2015. Smásala tók líka kipp, og jókst um 10,9% á ársgrundvelli en Bloomberg segir þá aukningu einkum mega skýra með kaupum á raftækjum og húsgögnum fyrir ný heimili.

Á síðasta ári skrifaðist um þriðjungur af öllum hagvexti á heimsvísu á Kína og bendir Bloomberg á að uppgangur þar í landi geti m.a. haft jákvæðar afleiðingar fyrir mörg nýmarkaðslönd enda aukin umsvif í Kína líkleg til að hafa hækkandi áhrif á hrávörðuverð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK