Hansen sló markamet Ólympíuleikanna – Guðjón fjórði

Mikkel Hansen skýtur að marki Portúgala í leiknum í dag.
Mikkel Hansen skýtur að marki Portúgala í leiknum í dag. AFP

Daninn Mikkel Hansen er orðinn markahæsti leikmaðurinn í sögu handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikum eftir að hann skoraði níu mörk fyrir Dani í sigrinum á Portúgölum í dag, 34:28.

Hann fór með þessu fram úr Kyung-shin Yoon frá Suður-Kóreu, sem um árabil var einn besti handboltamaður heims og skoraði 127 mörk fyrir þjóð sína á Ólympíuleikum. 

Hansen vantaði fyrir leikinn þrjú mörk til að ná Yoon en er nú kominn sex mörkum fram fyrir hann með 133 mörk.

Talant Dujshebaev, sem lék með landsliðum Sovétríkjanna og Spánar á Ólympíuleikum ásamt því að vera í liði sameinaðra fyrrverandi sovétlýðvelda á leikunum 1992, skoraði 123 mörk og er þriðji. 

Fjórði er síðan enginn annar en Guðjón Valur Sigurðsson sem skoraði 119 mörk fyrir Ísland á Ólympíuleikunum 2004, 2008 og 2012 og var í silfurliðinu í Peking árið 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert