Danmörk ekki í vandræðum með Portúgal

Jacob Holm reynir skot að marki Portúgala í leiknum í …
Jacob Holm reynir skot að marki Portúgala í leiknum í dag. AFP

Danmörk vann þægilegan 34:28-sigur gegn Portúgal í B-riðli í handknattleik karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Danir voru allan tímann yfir en góður endasprettur Portúgala í fyrri hálfleik, þar sem þeir minnkuðu muninn niður í eitt mark, velgdu heimsmeisturunum undir uggum.

Staðan í hálfleik 20:19 eftir fjörugan fyrri hálfleik.

Í þeim síðari sigldu Danir fram úr og unnu að lokum öruggan sex marka sigur.

Mikkel Hansen skoraði 9 mörk fyrir Dani og Mathias Gidsel 7 en hjá Portúgölum var Diogo Branquinho markahæstur með 4 mörk.

Danir eru með fullt hús stiga, 8 talsins, að loknum fjórum umferðum í B-riðlinum og því auðveldlega komnir áfram í fjórðungsúrslitin.

Portúgal er í fjórða sæti riðilsins og mætir næst lærisveinum Dags Sigurðssonar í Japan. Portúgal má ekki tapa þeim leik því þá missir liðið sætið úr greipum sér. Með sigri kemst Portúgal hins vegar áfram í fjórðungsúrslitin og mögulega með jafntefli líka.

Takist Japönum að sigra Portúgal á liðið möguleika að hrifsa fjórða sætið af Portúgal, en efstu fjögur liðin fara í fjórðungsúrslit. Auk þess eygja lærisveinar Arons Kristjánssonar í Barein enn möguleika, þó þeirra bíði snúnara verkefni gegn Egyptum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert