Aron lagði Dag að velli á Ólympíuleikunum

Aron Kristjánsson segir sínum mönnum til í leiknum í nótt.
Aron Kristjánsson segir sínum mönnum til í leiknum í nótt. AFP

Aron Kristjánsson hafði betur í uppgjörinu við Dag Sigurðsson þegar íslensku þjálfararnir mættust með lið sín í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Tókýó í nótt.

Barein, undir stjórn Arons, sigraði Japan, undir stjórn Dags í fjórðu umferð riðlakeppninnar eftir tvísýna baráttu, 32:30. Japanir voru yfir í hálfleik, 17:16, og liðin voru yfir til skiptis í seinni hálfleiknum. Barein var hins vegar einu eða tveimur mörkum yfir síðustu tíu mínútunar og Japan náði aldrei að jafna.

Mohamed Ahmed og Husain Alsayyad voru atkvæðamestir hjá Barein með 7 mörk hvor. Tatsuki Yoshino var markahæstur hjá Japan með 6 mörk. Motoki Sakai, sem hefur samið við Íslandsmeistara Vals, varði sex skot í marki Japan en Kenya Kasahara, sem hefur samið við Hörð á Ísafirði, náði ekki að skora fyrir japanska liðið í leiknum.

Dagur Sigurðsson kallar til sinna manna í leiknum gegn Barein …
Dagur Sigurðsson kallar til sinna manna í leiknum gegn Barein í nótt. AFP

Barein er þá með 2 stig, jafnmörg og Portúgal, en Japan er án stiga. Barein og Japan eiga enn bæði von um að skáka Portúgölum, ná fjórða sæti riðilsins og komast í átta liða úrslit. Til þess þarf Portúgal fyrst að tapa fyrir Dönum síðar í dag, og síðan þarf Japan að vinna Portúgal í lokaumferðinni. Þá gætu Japan, Barein og Portúgal orðið jöfn að stigum og markatala þeirra innbyrðis myndi þá ráða hvert þeirra færi áfram. 

Brasilía vann Argentínu, 25:23, í uppgjöri neðstu liða A-riðilsins í nótt. Brasilía fékk sín fyrstu stig og á þar með enn von um að komast í átta liða úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert