Varði vítakast á lokasekúndunni

Jessica Ryde var hetja Svía í dag og hér nær …
Jessica Ryde var hetja Svía í dag og hér nær hún boltanum á undan hinni frönsku Pauline Coatanea. AFP

Jessica Ryde, markvörður sænska kvennalandsliðsins í handknattleik, tryggði liði sínu dýrmætt stig á Ólympíuleikunum í dag þegar hún varði vítakast eftir að flautað hafði verið til leiksloka í viðureign Svía og Frakka.

Leikurinn endaði 28:28 þar sem Grace Zaadi Deuna tók vítakast í leikslok en Ryde varði. Svíar voru yfir, 28:26, þegar þrjár mínútur voru eftir en Zaadi Deuna jafnaði metin þegar tæpar 90 sekúndur lifðu af leiknum.

Carin Strömberg skoraði 7 mörk fyrir Svía í leiknum en hjá Frökkum var Pauletta Foppa atkvæðamest með 6 mörk.

Svíar eru fyrir vikið eina ósigraða liðið í B-riðli keppninnar og eru með 5 stig. Spánverjar eru með 4 eftir sigur á Brasilíu í morgun, 27:23, en Brasilía, Rússland og Frakkland eru öll með 3 stig og Ungverjar eru án stiga eftir tap gegn Rússum, 31:38.

Fjögur liðanna komast áfram í átta liða úrslitin og það verður því harður slagur í tveimur síðustu umferðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert